Fyrir nokkrum dögum fengum við mjög skemmtilegan tölvupóst frá eiganda Hrafnfaxa frá Hindisvík, Veroniku Kremmer, en Hrafnfaxi er ræktaður af Tobba. Hann tamdi hann líka sjálfur og seldi þegar hann var 5 vetra gamall. Hrafnfaxi er nú orðinn 31 vetra og við "hestaheilsu". Hann er undan Glóblesa frá Hindisvík og Brúnstjörnu frá Hindisvík og er því hreinræktaður Hindisvíkingur.
Hann var farsæll stóðhestur í Slóveníu og Þýskalandi og er til dæmis faðir hryssunnar, Elskamin, sem hefur náð mjög góðum árangri, meðal annars sem skeiðhross. Annar þekktur sonur Hrafnfaxa er Hrafnar frá Hindisvík sem var mjög farsæll keppnishestur og var m.a. Íslandsmeistari í ungmennaflokki og í úrslitum í ungmennaflokki á Landsmóti, með 8,60 í einkun. Þá aðeins 6 vetra gamall. 

Veronika segir um Hrafnfaxa:
Ég eignaðist hann þegar hann var 18 vetra. Hann var búinn að vera stóðhestur í Slóveníu í mörg ár. Ég tók hann með mér til Þýskalands og byrjaði að þjálfa hann aftur. Við kepptum aðeins í ungmenna og unglingaflokki söfnuðum þónokkrum verðlaunaborðum. Hrafnfaxi var aldrei veikur um ævina nema fyrir utan smávægileg meiðsli eftir fall sem hann lenti í.
"Hrafnfaxi er mjög sérstakur hestur. Hann er stundum efins en lætur hafa sig út í allt. Núna í ellinni kemur íslenski villihesturinn í honum oft í ljós :) en hvaða barn sem er getur umgengist hann. Maður sér enn í dag hversu frábærar gangtegundirnar hans eru. Brokkið hans 31 vetra gamall leika ekki mörg unghoss eftir!
Því miður eigum við ekki neinar reiðmyndir af honum þar sem þetta var fyrir tíma snjallsímanna."


hrafnfaxi1Hrafnfaxi árið 2012, þá 27 vetra

hrafnfaxi2hrafnfaxi3hrafnfaxi4hrafnfaxi5hrafnfaxi6

Það er alltaf gaman að fá svona fréttir og viljum við þakka Veroniku kærlega fyrir að leyfa okkur að birta bæði myndirnar og textann.

Nýlega hafði einnig samband við okkur eigandi Heljars frá Hindisvík, sem er albróðir Hrafnfaxa. Fréttina um það má lesa með því að smella hér