Hér kemur stutt samantekt á þeim folöldum sem við eigum von á í sumar, ef allt gengur eftir.
Tilhlökkunin er eins og alltaf farin að segja til sín mjög snemma.


 

Hanný frá Þúfu fór undir Akk frá Vatnsleysu og er því von á enn einu Akksafkvæmi undan hryssu af hornfirskum ættum, en þessi pörun hefur reynst okkur mjög vel. Við höfum verið að halda hornfirskum hryssum undir Akk síðan árið 2011 og má lesa nánar um það hér.
Þetta verður fyrsta afkvæmi Hannýjar og verður spennandi að sjá hvort hún erfi fótaburðinn sinn áfram.  

2019 hannyAkkur og Hanný


Fimma, sem er sammæðra Hanný frá Þúfu og einnig af hornfirskum ættum fór líka undir Akk frá Vatnsleysu.
Þetta verður líka hennar fyrsta afkvæmi og mjög gaman að sjá hvað kemur undan þeim.  

2018 fimmaAkkur og Fimma


Gargandi-Snilld fór undir Nökkva frá Syðra-Skörðugili. Við eigum hryssu á öðrum vetri (Mön) undan þeim sem okkur líst mjög vel á.
Þetta folald verður mjög mikið hornfirskt ættað. 

2017 gargandiGargandi og Nökkvi


Kleópatra fór undir Aðal frá Nýjabæ og verður virkilega gaman að sjá hvað undan þeim kemur. Við fengum eitt merfolald (Hildur) undan Aðli í fyrra sem við erum mjög ánægð með. Það væri ekki leiðinlegt að fá aðra hryssu, en við höfum hingað til fengið tvo hesta (Glóblesi og Tígull) undan Kleópötru.

2019 kleoAðall og Kleópatra


Glenna fór aftur undir Strák frá Vatnsleysu. Þau eiga nú þegar tvö afkvæmi saman (Þrenna og Glanni) og virðast smellpassa saman. Afkvæmin eru bæði falleg og sýna flotta takta. Þannig að við ákváðum að halda þeim aftur saman.
Þar sem þau eru bæði hjálmskjótt er öruggt að afkvæmið verður það líka. 

2017 glennaGlenna og Strákur


Hornfirðingurinn Hæra fór undir Akk frá Vatnsleysu. Þau áttu saman son (Heljar) árið 2017 og er því von á alsystkini hans í sumar. Eitt er vitað fyrirfram um þetta afkvæmi, en það er að það verður rautt að lit. Líklegt þykir okkur að það verði líka stórt og myndarlegt þar sem Akkur hefur gefið okkur stór hross og Hæra og hennar móðurætt er mjög stór. 

2017 haeraAkkur og Hæra


Gríma fór aftur undir Strák frá Vatnsleysu, en þau hafa átt saman 6 afkvæmi og blandast vel. Meðal afkvæma þeirra er Dáð, sem er nú sinn fyrsta vetur í þjálfun og fer mjög vel af stað. Þar sem Gríma og Strákur eru bæði hjálmskjótt verða afkvæmi þeirra alltaf hjálmskjótt. Þess má til gamans geta að í hvert skipti sem þau eiga afkvæmi eru 50% líkur á því að Gríma gefi áfram álótta genið. Það hefur hjá 7 afkvæmum hennar ekki gerst einu sinni! 

2017 grimaGríma og Strákur


Nú er bara að bíða spennt/ur og hlakka til ! :D