fonixhryssur-1 

Á þessum tímum covid, veðurlægða og stríðsátaka í heiminum fannst mér kjörið að hugsa um eitthvað sem gleður hjartað. Þar sem veðrið í dag var loksins yndislegt og sólin lét sjá sig fór hugurinn strax í sumargír og tilhlökkunin yfir því náði miklum hæðum. Það verður nefnilega mjög spennandi sumar hjá okkur í hrossaræktinni. 
Ef allt gengur eftir fæðast okkur 13 folöld. Þar má nefna fyrsta árganginn undan honum Nökkva frá Syðra-Skörðugili. Þetta verða samt ekki alveg fyrstu Nökkvaafkvæmin sem við fáum, en við eigum til tvær eldri dætur hans (Mön og Heru), sem við erum mjög ánægð með.
Flestar hryssurnar sem við héldum undir hann eru af Hornfirskum ættum, en hér eftir kemur smá upptalning á hryssunum sem voru hjá Nökkva.
nokkvi-audbjorg

Nökkvi x Auðbjörg frá Vatnsleysu
Hér að ofan má sjá Nökkva og Auðbjörgu, en Auðbjörg er undan Glampa frá Vatnsleysu og Auði frá Vatsleysu (9 tölt).  Þetta er hennar annað afkvæmi sem fæðist okkur og erum við verulega spennt fyrir að sjá hvað kemur út úr þessari blöndu, enda er Auðbjörg með hreyfingaflottari hryssum. 
nokkvi-alvor

Nökkvi x Alvör frá Vatnsleysu.
Alvör er undan Sindra frá Vatnsleysu og Auði (eins og Auðbjörg hér að ofan). Við reiknum með að afkvæmið þeirra verði vel stórt þar sem þau eru bæði í ríflegri stærð. Alvör er frábær alhliðahryssa. Hún átti sitt fyrsta folald í fyrra, undan bróður Nökkva að föðurnum (Skálmar frá Nýjabæ) og hefur hann Funi "litli" einmitt sýnt okkur mjög skemmtilegar hreyfingar og mikið tölt. 

nokkvi-edda

Nökkvi x Edda frá Hlemmiskeiði.
Edda er mikill Hornfirðingur. Faðir hennar er Byr frá Mykjunesi og móðir hennar er hreinræktuð af gamla Árnanes stofninum (Hornafjörður). Edda hefur gefið okkur eina gullfallega hryssu (Irpa) undan Skálmari frá Nýjabæ. Skálmar og Nökkvi eru undan sama hesti (Aðall frá Nýjabæ) svo það verður svipuð blanda núna.

nokkvi-fimma

Nökkvi x Fimma frá Dynjanda
Fimma er hornfirsk hryssa úr okkar ræktun. Hún er ljúf alhliðahryssa af Hornfirskum ættum. Fimma hefur gefið okkur tvo myndarlega syni og verður spennandi að sjá hvað kemur núna. 

nokkvi-melkorka

Nökkvi x Melkorka frá Miðfelli
Melkorka er flugvökur alhliðahryssa úr okkar ræktun. Faðir hennar er Akkur frá Vatnsleysu og móðir hennar af Hornfirskum ættum. Melkorka átti sitt fyrsta folald í fyrra (Fengur). 

nokkvi-stjarna

Nökkvi x Stjarna frá Runnum
Stjarna er dóttir Mola frá Skriðu og töluverður Hornfirðingur í móðurætt. Viljug, taugasterk og hágengur mannvinur. Við eigum fyrir eina dóttur hennar og Skálmars frá Nýjabæ (Sunna). 

nokkvi-kleopatra

Nökkvi x Kleópatra frá Kirkjubæ
Kleópatra er dóttir Oturs frá Sauðárkróki og hinar einu sönnu Rauðhettu frá Kirkjubæ. Þetta verður hennar síðasta folald og erum við mjög spennt að sjá hvort við fáum nokkuð eina hryssu undan henni í lokin. Hingað til höfum við alltaf fengið hesta. Hún á einn son undan Aðli frá Nýjabæ sem við bindum miklar vonir við, en sá heitir Hörður frá Hindisvík. Vonandi reynist þessi blanda aftur svona vel =) 



Það verður líka mjög spennandi hjá okkur í hjálmskjóttu deildinni, en þar eigum við von á alls 3-4 folöldum. Þrjú þeirra eru undan tveimur hjálmskjóttum foreldrum, svo það er gefið að þau verði hjálmskjótt, eitt er helmingslíkur á að beri litinn. Ekki er hægt að taka nógu oft fram að fyrir utan litinn vonumst við þarna auðvitað til að fá frábær hross. 

eldon-glenna

Eldon frá Varmalandi x Glenna frá Flugumýri
Glenna fór undir efnilegan ungan hjálmskjóttan fola, Eldon frá Varmalandi. Hann er undan Hring frá Gunnarsstöðum og fyrstu verðlauna dóttur Glampa frá Vatnsleysu. Glenna er viljug alhliðahryssa með mjög gott tölt. Það er gefið að afkvæmi þeirra verður hjálmskjótt, en svo er spurning hver grunnliturinn verður og hvort Glenna gefi álótta genið í bónus. 

eldon-threnna

Eldon frá Varmalandi x Þrenna frá Hindisvík
Þrenna fór eins og móðir hennar undir Eldon. Hún er dóttir Stráks frá Vatnsleysu og þetta er hennar fyrsta afkvæmi. Þrenna var frumtamin í fyrra og fór mjög vel af stað. Ákveðið var að fá eitt folald og halda síðan áfram að temja hana seinna. 

fonix-grima

Fönix frá Flugumýri x Gríma frá Laugabóli 2
Gríma fór aftur undir Fönix, en við fengum undan þeim stóra og fallega jarphjálmskjótta hryssu í fyrra (Vanda). Hanný tamdi Grímu á sínum tíma og reyndist hún ljúf alhliðahryssa með mikinn fótaburð. Til gamans má geta að hún hefur skilað okkur 10 afkvæmum, en þó aðeins einu með álótta genið og voru í hvert skipti 50% líkur á því. 

fonix-flauta

Fönix frá Flugumýri x Flauta frá Vatnsleysu
Flauta fór undir Fönix síðasta sumar og eru 50% líkur á að afkvæmið verði hjálmskjótt. Flauta er sjóðandi viljug og hágeng alhliðahryssa undan Sindra frá Vatnsleysu og Hörpu sem er af gamla stofninum í Vatnsleysu. Þetta verður hennar annað afkvæmi, en hún á fyrir dóttur Skálmars frá Nýjabæ (Skálmöld) sem er mjög glæsilegt tryppi.



Síðast en ekki síst má nefna að Hindisvíkurhryssurnar hreinræktuðu, Hetja og Yngri-Rauðka fóru báðar undir Lennon frá Vatnsleysu. En við fengum einmitt einn fola undan honum í fyrra (Fengur) sem við erum mjög hrifin af.  Lennon er undan Lydíu frá Vatnsleysu sem sigraði eftirminnilega töltið á Landsmótinu 2004 og faðir hans er Hágangur frá Narfastöðum, Glampasonur. 
hetja17-15yraudka1
Hetja er hágeng klárhryssa sem er búin að vera í ræktun í nokkur ár og tömdum við fyrsta afkvæmið hennar í haust (Hildur), sem fór mjög lofandi af stað.
Yngri-Rauðka er einnig mjög hágeng klárhryssa og verður þetta hennar fyrsta folald.
fengur1
Á myndinni má sjá Feng, son Lennons sem fæddist okkur 2021.

Þessi samantekt var nú aðallega til gamans gerð fyrir mig. Minnkaði ekkert spenningurinn við þetta. Takk fyrir þeir sem nenntu að lesa :) 
-Heiða Heiler