Hjálmskjótt (eða slettuskjótt eins og það er stundum kallað) greinir sig frá venjulegum skjóttum lit bæði með útliti og erfðum. Neðst á síðunni má einnig sjá nokkra stóðhesta sem bera í sér litinn og lista yfir hjálmskjótt hross sem hafa náð 1 verðlaunum.

 

 Útlit

Hjálmskjótt hross skera sig oft verulega úr, en það má lýsa litnum þannig að engu sé líkara en að albínói hafi verið tekinn og yfir hann hafi verið hellt málningu úr fötu, að ofan frá. Þau eru hvít á kvið, oftast með hjálm og glaseygð. Í flestum (ef ekki öllum?) tilfellum eru hjálmskjótt hross með blett í taglinu. Ef þau eru með hvítt tagl er bletturinn í lit og ef taglið er dökkt er bletturinn hvítur.

Hjálmskjótti liturinn er til í mörgum mismunandi útfærslum, allt frá því að vera hjálmótt, sokkótt með smá blett á kvið og upp í að hrossið sé mjög mikið hvítt. Ég læt bara myndirnar hér að neðan tala.

Hér að neðan má sjá myndir af hjálmskjóttum hrossum:  

Myndasafn í vinnslu ..

hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimagrimuson1fonixhryssur-18hjalmskjott-klukka

Eins og verður vikið að neðar í þessari grein þarf hjálmskjótta genið að koma frá báðum foreldrum hestsins svo hann geti orðið hjálmskjóttur.

Þau hross sem bera í sér hjálmskjótt gen bera það yfirleitt með sér í útliti, en er það þó ekki algilt, og eru líka dæmi um að engin auðkenni er að sjá.

Algeng einkenni hjá genberum eru blesur, stjörnur, nösótt eða tvístjörnótt og oft samfara því leistar eða sokkar.

Eins er algengt að hrossin séu glaseygð eða með vagl í auga.

Hér að neðan má sjá myndir af hrossum með genin:

 (smellið á myndirnar til að stækka þær, svo er hægt að fletta til hægri og vinstri)

Myndasafn í vinnslu ..
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima
hjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrimahjalmskjott dadoggrima


Erfðir

Hjálmskjótt erfist öðruvísi en venjulega skjótt og verða báðir foreldrar að hafa gen fyrir litnum svo að afkvæmið geti orðið hjálmskjótt. Ef báðir foreldrar eru hinsvegar hjálmskjóttir verður afkvæmið alltaf hjálmskjótt.

Hér að neðan ætla ég að gera tilraun til að útskýra erfðafræði litarins á einfaldaðan hátt.

Athugið að nú er bara verið að einbeita sér að hjálmskjótta litnum. Grunnliturinn getur verið hvaða litur sem er og þetta leggst þá bara ofan á þá erfðafræði.

hjalm1

Skýringar fyrir myndirnar sem koma neðar..

Við ræktun á hjálmskjótta litnum höfum við alltaf séð fyrir okkur fjögur gen, tvö í hvoru foreldri, sem stýra því hvort folaldið verði hjálmskjótt eða ekki. Folaldið fær aðeins eitt gen frá hverju foreldri.

hjalm2

Myndin hér að ofan sýnir föður (blá umgjörð) sem hefur tvö gen og móður (græn umgjörð) sem hefur einnig tvö gen. Þegar þeim er parað saman skilar hvert þeirra einu af þessum tveimur genum til afkvæmisins, sem er hér sýnt sem blátt gen frá föður og grænt frá móður.

Tilviljun ræður því hvoru geninu foreldrið skilar til afkvæmisins og því 50% líkur á hvoru geni.

Nokkur dæmi:

hjalm d1

Hér að ofan erum við með föður með hjálmskjótta genið (gen B) og móður sem ber ekki í sér gen fyrir hjálmskjóttum lit.

Ég hef merkt gen foreldranna með A, B, C og D til aðgreiningar.

Möguleg folöld eru folaldið vinstra megin sem er ekki með gen fyrir hjálmskjóttu. Það hefur þá hlotið gen A frá föður og annað hvort C eða D frá móður (skiptir ekki máli hvort þar sem hún hefur ekkert hjálmskjótt gen).

Folaldið hægra megin hefur aftur á móti hlotið hjálmskjótta genið (B) frá föður og venjulegt gen frá móður.

Samantekið: Þegar annað foreldrið er með hjálmskjótt gen og hitt ekki þá eru 50% líkur á að afkvæmið fái gen fyrir hjálmskjóttu.

hjalm d3

Ef parað er saman hjálmskjóttu hrossi og öðru sem ber ekki í sér litinn er aðeins ein möguleg útkoma, þar hjálmskjótta foreldrið mun alltaf gefa frá sér hjálmskjótt gen og hitt foreldrið ekki.

Samantekið: Ef annað foreldrið er hjálmskjótt og hitt foreldrið ekki fæst alltaf genberi.

hjalm d2

Hér að ofan erum við með tvö hross sem bera í sér gen fyrir hjálmskjóttum lit. Þá eru 3 möguleikar:

1) Afkvæmið fær ekki hjálmskjótt gen. Ef afkvæmið fer gen A frá föður og C frá móður erfir það ekki gen fyrir hjálmskjóttu. (25% líkur).

2) Afkvæmið er genberi. Ef folaldið fær eitt hjálmskjótt gen frá öðru foreldri og venjulegt gen frá hinu verður það með eitt hjálmskjótt gen. (50% líkur í þessu tilfelli)

3) Afkvæmið er hjálmskjótt. Ef afkvæmið fær gen B og D (semsagt tvö hjálmskjótt) frá foreldrum sínum verður það hjálmskjótt. Undan tveimur hrossum með genið eru 25% líkur að fá hjálmskjótt folald.

Samantekið: Undan tveimur genberum er hægt að fá afkvæmi sem hefur ekki gen fyrir hjálmskjóttu, genbera og hjálmskjótt. Líklegast (eða 50%) er að fá genbera en 25% líkur eru bæði á hjálmskjóttu og að folaldið beri ekki gen fyrir litnum.

 Eins og sjá má á síðustu tveimur dæmum hér að ofan getur liturinn getur legið niðri um margar kynslóðir, vegna þess að hann þarf að koma báðu megin frá. Hrossin bera í sér genið og svo þegar tveimur genberum er parað saman kemur "allt í einu" og "alveg upp úr þurru" skjótt folald.

Hér áður fyrr þegar minna var vitað um erfðir litarins kom þetta gjarnan mjög á óvart og vakti furðu hvernig gæti komið allt í einu skjótt og ekkert skjótt í ættinni ..

hjalm d4

Þegar parað er saman hjálmskjóttu hrossi og genbera eru 50/50 líkur á genbera eða hjálmskjóttu folaldi. Þar sem hjálmskjótta foreldrið gefur alltaf eitt hjálmskjótt gen ræðst litur folaldsins af því hvort foreldrið sem er með genið gefur sitt gen til folaldsins eða ekki.

hjalm d5

Og að lokum eitt einfalt; Undan tveimur hjálmskjóttum hrossum fæst alltaf hjálmskjótt folald.


Hvernig er hægt að vita fyrir víst að hestur sé með hjálmskjótt gen?

Eina leiðin til að vera 100% öruggur um að umræddur hestur beri í sér gen fyrir hjálmskjóttu er annað hvort að annað foreldri hans er hjálmskjótt, eða þá að láta greina það með DNA. Greiningin er fremur einföld og þarf aðeins að ná hárum úr faxi eða tagli (með rót) og senda á rannsóknarstofur sem bjóða upp á slíka þjónustu.

Við höfum til dæmis sent til Þýskalands og var það bæði ódýrara en við bjuggumst við og fljótlegt.


 

Forfeður með genin

Margir vel þekktir stóðhestar bera í sér gen fyrir hjálmskjóttum lit. Hér að neðan eru nokkur dæmi.

 Glampi frá Vatnsleysu - Glampa þarf vart að kynna, en hann er þekktur fyrir óvenjulegt fas og fótaburð. Hann hefur gefið mikið af eftirtektarverðum hrossum og er með 1 verðlaun fyrir afkvæmi.

Sjálfur er Glampi með 8,35 í aðaleinkun og þar af 8,68 fyrir hæfileika.

Hann á 561 skráð afkvæmi í feng.

Glampi ber í sér gen fyrir hjálmskjóttum lit og hefur gefið nokkur hjálmskjótt afkvæmi, þar á meðal stóðhestana; Strák, Seðil og Hjálmar frá Vatnsleysu.

hjalmskjott glampi

Glampi frá Vatnsleysu, knapi er Björn Friðrik Jónsson


 

Jarl frá Búðardal - er rauðblesóttur glófextur undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Rispu frá Búðardal sem var rauðblesótt og með hjálmskjótta genið.

Jarl hlaut 8,10 í aðaleinkun í kynbótadómi, þar af 8,47 fyrir hæfileika. Undan honum eru skráð yfir 200 afkvæmi og þónokkur með mjög há 1.verðlaun. Hann á eftir að skila eftir sig mikið af hrossum og segir sig sjálft að töluverður fjöldi þeirra er með hjálmskjótta genið.

Jarl var seldur út til Svíþjóðar.

hjalmskjott jarl

Jarl frá Búðardal


 

Orion frá Litla-Bergi - er undan Rökkva frá Kirkjubæ og Bliku frá Vallanesi. Hann hlaut 8,09 í aðaleinkun í kynbótadómi og þar af 8,29 fyrir hæfileika og 9 fyrir tölt.

Orion á skráð yfir 400 afkvæmi í feng og því nokkuð tryggt að hann mun skila eftir sig töluvert af genberum.

hjalmskjott orion

Orion frá Litla-Bergi


Hróður frá Refsstöðum - Hróður er einn þekktasti stóðhestur landsins og með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.

Hann er með hjálmskjótta genið og mun vera drjúgur að skila því áfram í gegn um mörg afkvæmi sín.

hjalmskjott hrodur

Hróður frá Refsstöðum, knapi er Mette Mannseth

 


Hjálmar frá Vatnsleysu - er rauðhjálmskjóttur undan Glampa frá Vatnsleysu og Nýjungu frá Vatnsleysu. Hann hefur verið fluttur út til Þýskalands, en á yfir 250 skráð afkvæmi og töluvert af þeim á Íslandi.

hjalmskjott hjalmar

Hjálmar frá Vatnsleysu


 

Ægir frá Móbergi - Ægir er einn af fáum hestum sem er með hjálmskjótta genið en sýnir þess engin merki í útliti. Hann er svartur með engin auðkenni.

Undan Ægi hafa þó komið hjálmskjótt hross og mikið af augljósum genberum.

Ægir er sýndur í kynbótadómi með 8,06 í aðaleinkun. Hann hefur verið seldur út til Hollands.

hjalmskjott aegir

Ægir frá Móbergi, knapi er Ragnheiður Haraldsdóttir


 

Djáknar frá Hvammi - er sonur Jarls frá Búðardal og Djásnar frá Heiði. Hann er rauðglófextur, blesóttur, sokkóttur.

Í kynbótadómi hlaut Djáknar 8,46 í aðaleinkun, þar af 8,68 fyrir hæfileika og m.a. 9,5 fyrir skeið og prúðleika.

Djáknar fór út til Þýskalands en skilur eftir sig þónokkur góð afkvæmi heima á Íslandi.

hjalmskjott djaknar

Djáknar frá Hvammi


 

Glotti frá Sveinatungu - er rauðglófextur, blesóttur. Faðir hans er Gustur frá Hóli og móðir Sonnetta frá Sveinatungu og kemur hjálmskjótta genið frá henni. Hún er aftur á móti undan Mars frá Litla-Bergi sem er sammæðra Orion frá Litla-Bergi sem er einnig þekktur genberi.

Glotti hlaut frábæran kynbótadóm með 8,24 fyrir sköpulag, 8,90 fyrir hæfileika og aðaleinkun 8,64. Skartar hann meðal annars 9,5 fyrir hófa, skeið og vilja og geðslag og 9 fyrir tölt, brokk og bak & lend.

Glotti hefur verið fluttur út til Danmerkur en skilur eftir sig töluvert af afkvæmum hér á Íslandi og eru þónokkur með góð 1 verðlaun.

hjalmskjott glotti

Glotti frá Sveinatungu. Knapi er Jakob Svavar Sigurðsson


Kvistur frá Skagaströnd - Kvistur er brúntvístjörnóttur, leistóttur. Hann hefur hlotið 1 verðlaun fyrir afkvæmi og eru til nokkur hjálmskjótt afkvæmi undan honum.

Í kynbótadómi hlaut Kvistur meðal annars 9 fyrir tölt, brokk og skeið.

Sköpulag: 8,28 Hæfileikar: 8,79 Aðaleinkun: 8,58

Kvistur var seldur úr landi árið 2020.

 

hjalmskjott kvistur

Kvistur frá Skagaströnd, knapi er Erlingur Erlingsson


Ölnir frá Akranesi - er rauðglófextur, blesóttur, hringeygður. Faðir hans er Glotti frá Sveinatungu og er líklegt að hann hafi erft hjálmskjótta genið frá honum. Móðir Ölnis er Örk frá Akranesi.

Í kynbótadómi hlaut Ölnir m.a. 9,5 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir tölt, brokk, stökk og fegurð í reið.

Sköpulag: 8,39 Hæfileikar: 8,93 Aðaleinkun: 8,71

Ölnir hefur hlotið 1.verðlaun fyrir afkvæmi.

Ölnir war seldur úr landi og fór hann árið 2021.

 

hjalmskjott olnir

Ölnir frá Akranesi. Knapi vinstra megin er Daníel Jónsson og á myndinni hægra megin situr Jakob Svavar Sigurðsson hestinn.


 

Stóðhestar á Íslandi með hjálmskjótt gen

Athugið að þetta eru aðeins dæmi og mjög langt frá því að vera tæmandi listi!

Skjanni frá Nýjabæ - Skjanni er brúnhjálmskjóttur stóðhestur. Hann hlaut 1.verðlaun strax fjögurra vetra gamall.

hjalmskjott skjanni

Skjanni frá Nýjabæ, 4.vetra. Knapi er Agnar Þór Magnússon


 

Eldur frá Torfunesi - er rauðblesóttur, leistóttur. Faðir hans er Máttur frá Torfunesi og móðir Elding frá Torfunesi sem er undan Djáknari frá Hvammi og þaðan kemur líklegast hjálmskjótta genið. Eldur hefur nú þegar gefið hjálmskjótt afkvæmi og mörg blesótt og tvístjörnótt.

Eldur hlaut aðeins fjögurra vetra mjög góðan kynbótadóm með 8,37 í aðaleinkun. Árið eftir hækkaði hann sig í 8,60 í aðaleinkun, sem skiptist í 8,61 fyrir sköpulag og 8,59 fyrir hæfileika. Þar á meðal eru 10 fyrir prúðleika, 9,5 fyrir brokk og 9 fyrir tölt, vilja og geðslag, fegurð í reið, háls/herðar/bóga og fótagerð.

hjalmskjott eldur

Eldur frá Torfunesi og Mette Mannseth.


 

 Hringur frá Gunnarsstöðum - er brúnstjörnóttur, hringeygður og hefur erft hjálmskjótta genið frá föður sínum, Hróð frá Refsstöðum.

Hringur hlaut mjög góðan dóm strax fjögurra vetra og var hann sýndur sem klárhestur með fjórar 9 í hæfileikadómi.

Hringur var sýndur aftur 5 vetra gamall og hlaut þá fjórar 9 og auk þess 9,5 fyrir brokk í hæfileikadómi.

Aðaleinkun er 8,30.

hjalmskjott hringur

Hringur frá Gunnarsstöðum, knapi er Þórarinn Ragnarsson.


 

 Lexus frá Vatnsleysu - Lexus er brúntvístjörnóttur, sokkóttur, glaseygður.

Hann hefur erft hjálmskjótta genið frá föður sínum, Hróð frá Refsstöðum.

Lexus var sýndur 5 vetra og hlaut þá fjórar 9 í hæfileikadómi. Hann er sýndur sem klárhestur.

Þess má geta að Lexus er undan Lydíu frá Vatnsleysu sem gerði garðinn frægann þegar hún sigraði Tölt og varð í 2 sæti í B-flokk á Landsmótinu 2004.

hjalmskjott lexus

Lexus frá Vatnsleysu, knapi er Ævar Örn Guðjónsson


 

Hjálmskjótt hross sem hafa hlotið 1 verðlaun

 

Skjanni frá Nýjabæ - Skjanni hlaut 1 verðlaun þegar hann var aðeins 4 vetra.

Hann er brúnhjálmskjóttur undan Hróð frá Refsstöðum og Þóru frá Nýjabæ.

hjalmskjott domur skjanni

Skjanni frá Nýjabæ, 4 vetra. Sýnandi er Agnar Þór Magnússon


 

Seðill frá Vatnsleysu - er brúnhjálmskjóttur stóðhestur undan Glampa frá Vatnsleysu og Sonötu frá Vatnsleysu. Hann er nú í Austurríki.

 hjalmskjott domur sedill

Seðill frá Vatnsleysu, sýnandi er Þórður Þorgeirsson


Undrun frá Akranesi - er brúnhjálmskjótt hryssa undan Glampa frá Vatnsleysu og Maístjörnu frá Akranesi. Hún var sýnd af Jóhanni Skúlasyni árið 2008, þá 6 vetra. Undrun er kynbótahryssa í Danmörku.

hjalmskjott domur undrun

Undrun frá Akranesi


Hörgull frá Steðja - var sýndur árið 2003, þá 8 vetra gamall.

Hann er rauðhjálmskjóttur og undan Undra frá Bergi og Alúð frá Steðja.

Hörgull fór út til Svíðþjóðar.

hjalmskjott domur horgull

Hörgull frá Steðja, sýnandi er Bergur Jónsson


Glámur frá Hofsósi - náði reyndar ekki 1 verðlaunum en var svo nálægt því að við verðum að hafa hann með, en aðaleinkunn hans er 7,98.

Glámur var rauðhjálmskjóttur stóðhestur undan Nirði frá Vatnsleysu (Glampasonur) og Veru frá Kópavogi (1 verðlauna hryssa undan Hnokka frá Steðja).

Glámur var sýndur á kynbótasýningu árið 2004, þá 8 vetra gamall. Knapi var Mette Mannseth.

Glámur féll frá árið 2013.

hjalmskjott domur glamur

Glámur frá Hofsósi, sýnandi er Mette Manseth (efri mynd). Knapi á neðri myndinni er Halldór Svansson.


Glanni frá Þingholti - er undan Glotta frá Sveinatungu og Ásu frá Keflavík. Ása er síðan dóttir Orions frá Litla-Bergi.

Glanni var fluttur út til Þýskalands folaldsveturinn. Hann var sýndur þegar hann var 6 vetra og hlaut strax 8,15 í aðaleinkunn.

hjalmskjott domur glanni

Glanni frá Þingholti


 

Heljar frá Brekknakoti -  er fæddur 2012. Sonur Elds frá Torfunesi og Köru frá Akureyri (F: Ægir frá Móbergi). 
Hann fór úr landi 2 vetra gamall og var sýndur í 1.verðlaun 6 vetra gamall. 
heljarheljar-domur


 

Takk fyrir lesturinn!

Ég gleðst alltaf yfir athugasemdum sem leiða til bóta, svo ef þú sérð einhverjar villur eða ert með tillögur, endilega hafðu samband.

Ef þú átt hjálmskjótt hross eða genbera er líka alltaf gaman að bæta við myndum í myndasafnið. Myndirnar þurfa að sýna lit hestsins vel og helst vera í góðum gæðum.

Ef þig langar að lesa meira um hjálmskjótt þá er hægt að lesa um okkar ræktun á litnum hér.