Hornfirski hesturinn

Með Hornfirska hrossastofninum er eins og nafnið bendir til átt við þann stofn hrossa sem ræktaður var í Hornafirðinum (Austur-Skaftafellssýslu). Hér að neðan ætla ég að reyna að gera grein fyrir sögu stofnsins, helstu ræktunargripum og einstaklingum, sem og stöðu hans í dag. Ef þið lumið á frekari upplýsingum, myndum eða sögum sem gætu prýtt þessa samantekt væri ég mjög þakklát ef þið mynduð hafa samband.

hornfirski kort

Hornafjörður á Suðausturlandi


Uppruna Hornfirska kynsins er best lýst í Jódyn I:

"Hvergi á landinu voru samgöngur jafn erfiðar framan af öldinni en í Austur-Skaftafellssýslu. Þar eru mörg vötn og ströng auk þess sem saklausar smásprænur urðu fyrirvaralaust að skaðræðisfljótum. Hestarnir voru samgöngutækið sem treysta varð á og oft varð að hafa hraðann á, svo sem þegar vitja þurfti læknis.

.. Austur-Skaftfellingum var það ljóst fyrr en öðrum að með því að koma á reglum um kynbætur hrossa og með því að banna lausagöngu ógeltra hesta myndu þeir fyrr ná fram þeim eðliskostum sem þeir vildu hafa í hrossum sínum. Lagt var kapp í að rækta þýðgeng og þolgóð hross vegna þess hve vegalengdir voru miklar. Þau þurftu að vera sterk og þola vel að bera klyfjar um langan veg úr kaupstað. Ekki síst þurftu þau að vera góð vatnahross, þ.e. kunna að vaða og fóta sig í straumþungum vötnum. Þá var það ótvíræður kostur að hrossin væru stór. Þannig komust þau yfir dýpi allra ála, án þess að lenda á sundi.

.. Hin mikla einangrun héraðsins hefur haft afgerandi áhrif á að lítið var um blöndun við hross úr öðrum landshlutum og því hefur fljótt myndast samstæður stofn hrossa með líka eiginleika, bæði hvað varðar byggingu og hæfileika. Þegar við það bættist að hross á þessu svæði voru frekar fá er von á því að mikil skyldleikaræktun hefur átt sér stað." (Jódynur I)

  "Þannig var skyldleikaræktun stunduð ákaft og náið í Árnanesi svo segja má að þar hafi ekkert verið ógert í skyldleikaræktun nema að fá mæðurnar undan dætrum sínum." (Páll Imsland)

"Mikilvægt og einstætt einkenni hrossaræktar í A-Skaftafellssýslu var það að flestar hryssur, sem notaðar voru til kynbóta, voru tamdar. Ræktunin byggði því á meiri vitneskju um eiginleika kynbótagripanna en víða annars staðar og hlaut því að leiða til meiri framfara.

Þann mikla frægðarljóma sem stafar af Hornfirska hestinum má rekja til stóðhestanna sem voru fluttir úr Hornafirði til annarra landshluta. Víða voru þeir hestar upphafið að skipulegri ræktun reiðhesta og áhrif þeirra hafa verið ótrúlega mikil. Það sannar best hina miklu reiðhestakosti sem bárust með þeim frá einangruðum sveitum Austur-Skaftafellssýslu." (Jódynur I)

hornfirski1

Hornfirski vatnahesturinn


 

Lýsingar á stofninum:

Fyrsta faglega dóminn um hornfirska hrossastofninn ritaði Theódór Arnbjörnsson árið 1924 í kjölfar ferða hans til hrossaskoðunar sumarið 1923. Hann sagði hrossin fríð, en fannst nokkuð vanta á þroska, sem hann taldi auðveldlega hægt að bæta með því að fóðra hrossin betur á veturna.

"Í Austur-Skaftafellssýslu eru hrossin yfirleitt fríð, einkum í Hornafirði. Þar voru flest hrossin, sem komu á sýninguna, mjög fríð í andliti, hálsinn fínn og reistur, kroppurinn grannur og réttur. Þá virtist mér helsti gallinn, að þroskinn var ekki að sama skapi, nema á nokkrum hrossum, sem höfðu fengið gott eldi. Fríðust og fjörlegust virtist mér svo nefnd Óðu-Rauðku-ætt frá Árnanesi. Dótturdóttir hennar, Rauðka 134 í Dilksnesi, þótti mér skara svo fram úr, að ekki þykist ég hafa séð álitlegri hryssu."

Gunnar Bjarnason lýsti einkennum Hornafjarðarstofnsins í Búfjárfræði árið 1961, hann hafði þá verið landsráðunautur í hrossarækt í 22 ár og þekkti því stofninn orðið vel:

Bráður þroski og mikil stærð. Hrossin vaxa til fulls á 3-5 árum við sæmilegt viðurværi. Venjuleg stærð fullþroska hrossa af stofninum er 142-148 cm. á bandmáli, sem er talsvert yfir landsmeðaltali.

Alengustu litir eru brúnn, jarpur og rauður.

Geðslag er traust og taugar sterkar, svo að fælni er nær óþekkt. Vilji er öruggur og fjör algengt, sem ásamt miklu ákaflyndi og vinnuvilja getur gert þau erfið í reið, jafn vel hestfærustu mönnum. Þessi hross eru vitur og ratvís. Þau eru geðrík, stundum skaphörð, en heiðarleg, illsku- og hrekkjalaus og laus við styggð.

Gangurinn er fjölbreyttur, og afkomendur Skugga 201, Nökkva 260 og Svips 385 eru hreingengir, en algengt var, að þau afkvæmi Blakks 129, sem bæði höfðu skeið og brokk, væru víxluð.

Helztu ókostir eru þeir, að sum hrossin skortir fríðleika og fínleika, og þau láta lítið yfir sér. Fætur eru yfirleitt sterkir en nokkuð ber á kjúkuliðsskekkjum. Hófar eru furðu sterkir og endingargóðir, þótt sá veikleiki fylgi kyninu, að hófbotninn sé stundum nokkuð siginn. Það er arfgengur veikleiki, sem þarf að hafa gát við á ræktun stofnsins, sérstaklega hjá afkvæmum Skugga 201 frá Bjarnanesi. Lendin er rúm, nokkuð afturdregin, og hálsinn oft full djúpur og þykkur, þótt hann sé reistur og langur. Nokkuð ber á grófu hárafari, sem ver hrossin illa í votviðrum. Af þeim sökum eru sum þessara hrossa miður fær til útigöngu. Einnig þola þau illa vanfóðrun í uppvexti vegna þess, hve þroskinn er bráður.


 

Helstu ræktunargripir og einstaklingar

Óða-Rauðka 2 frá Árnanesi (f. 1885) er undan Rauð frá Árnanesi og Jörp frá Árnanesi. Hún er venjulega talin formóðir hinnar hornfirsku Árnanesættar og þar með kynsælasta hross á Íslandi. Óða-Rauðka fékk viðurnefni sitt af óstýrilæti og óviðráðanlegu ofsafjöri.

  "Óða-Rauðka var svipmikil og fremur höfuðstór. Meðalreist. Hár herðakambur. Lend mikil og vel vöðvuð. Sterkir fætur, grófir og liðamiklir. Hafði mikið og stífgert fjör. Var hverjum manni illviðráðanleg í upphafi ferðar, en gaf sig, er á daginn leið. Ódrepandi þol. Hafði allan gang, hátt og framgripsmikið tölt, svifamikið brokk og hrossa fljótust á skeiði og stökki." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Þegar Þorgríms Þórðarsonar, læknis í Borgum, var vitjað til manns í Árnanesi, var Rauðka tekin til handa lækninum. Gata lá niður túnið í Borgum, sem riðið var eftir. Nú stígur læknirinn í ístaðið og fer á bak. Þegar kom niður á aurana, tók Rauðka af lækninu, tauminn og fór hún sem gat, en læknir komst af baki við Kúhólsfit. Kom hann svo tilbaka með hana í taumi. Þá nefndi hann hana Óðu-Rauðku, og hefur það nafn haldist síðan.

Rauðka var há og löng, faxfögur og taglprúð, fótviss og fótsterk, vitur og skaphörð. Höfuðið var langt, augun stór og skær, gneistu, eyrun iðandi. Hálsinn var langur og þunnur og mjór í kverkinni. Herðakambur skarpur, hryggur með kryppu. Lendin löng og djúp læri. Hún var gammfljót á skeiði og stökki á blómaskeiði sínu, og þá tó hana enginn hestur svo ég vissi til." (Vilmundur Jónsson, Árnanesi)

"Óðu-Rauðka 2 var er eitt annálaðasta fjörhross í þessu landi og með afbriðgum kynföst, enda mikil skyldleikarækt notuð með afkomendur hennar." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Öll voru afkvæmi Óðu-Rauðku miklir kostagripir en í ræktunarsögu Hornafjarðarhrossa koma þó einkum þrjú við sögu, þ.e. dæturnar tvær; Villa-Rauðka og Lúlla- Rauðka, og Brúnn sem var notaður sem stóðhestur tveggja og þriggja vetra." (Egill Jónsson, Seljavöllum)


Hæra 342 frá Árnanesi (f. 1910) foreldrar Hæru voru Brúnn frá Árnanesi (M: Óða-Rauðka 2) og Rauðka frá Maríubakka. Hæra er ættmóðir allra greina Árnanesættar og raunar ein af allra mestu ættmæðrum aldarinnar, því að hún á sex gild afkvæmi, sem skilað hafa sér til nútímans.

Hæra var mjög fjörleg og fríð. Hún gaf aukinn léttleika í Árnaneshross nútímans, þótt að hún sé að hluta til komin í móðurætt af þungum freigátum af Síðu, svokölluðum Síðujálkum.

Hæra var sýnd og fékk 1.verðlaun. Dómsorðin voru:

Fríð, mjög fjörleg og létt, fín, reist, vel settir fætur og réttir.

  "Brún með hvít hár víða um skrokkinn, klárgeng, meðallagi stór, afar fjörug." (Þorbergur Þorleifsson, Hólum)


Stjarna 36 frá Árnanesi (f. 1909) var undan Hóla-Sóta og Villa-Rauðku frá Árnanesi (Móðir Villa-Rauðku var Óða-Rauðka 2)

Með Stjörnu hófst skipuleg innræktun Árnanesættar. Hún var afbragðs reiðhross, vökur forystuhryssa, sem rann oft fyrir stóðinu í Árnanesi á skeiði á meðan önnur hross fóru á stökki. Sagt er, að aldrei hafi brugðist undan henni gæðingur.

Lýsing á Stjörnu frá 1923: Mjög fríð, fjörleg, reist, ágætt bak og lend, vel settir, ágætir fætur.

"Rauðstjörnótt, afbragðs reiðhross, vökur." (Þorbergur Þorleifsson, Hólum)


Blakkur 129 frá Árnanesi (f. 1926) var undan Streitis-Blakk og Stjörnu 36 frá Árnanesi. Hann kemur á fjóra vegu frá langömmu sinni, Óðu-Rauðku 2 og á tvo vegu frá móður sinni, Stjörnu 36.

Blakkur fékk 1.verðlaun árið 1930 og 2.verðlaun fyrir afkvæmi árið 1933. Hann var notaður bæði í Hornafirði og Hrunamannahreppi og blandaðist þar vel við hin fríðu og lundgóðu Berghyls- og Skarðshross. Hann var stór (146 cm) og reistur, harður og viljugur.

Blakkur fótbrotnaði þegar hann var í girðingu sumarið 1939 og var þá felldur.

Afkvæmi hans voru yfirleitt með stærstu hrossum, vörpuleg og ófríð, skapmikil og dugleg, sérstaklega taugasterk og æðrulaus. Þetta voru ruddalegir skörungar.

  "Hann sagðist ekki hafa fengið meira flugskeið úr nokkrum hresti en honum, taldi hann hafa skap og fjör svo mikið, að ekki væri þörf á meiru fyrir kröfuharða hestamenn." (Sveinn Sveinsson, Hrafnkellsstöðum)

"Niðjar Blakks frá Árnanesi hafa náð mikilli útbreiðslu víða um landið, aðallega í Skaftafellssýslum og Suðurlandsundirlendi, bæði vegna dvalar Blakks sjálfs í Árnessýslu, en einnig fyrir tilverknað sona hans og sonarsona, aðallega Skugga frá Bjaranesi og sona hans.

Í Borgarfirði gætir mjög áhrifa Skugga frá Bjarnanesi og sona hans.

Í Norðurlandi breiddist þessi stofn mjög út um Skagafjörð og Eyjafjörð vegna Nökkva frá Hólmi og sona hans.

Afkvæmi Blakks voru með stærstu hrossum, fríðeikinn misjafn, að jafnaði varla talin vera fríð, eyrun nokkuð stór og útstæð. Hálsinn langur og reistur, en oft nokkuð djúpur og sver. Hlutföll sæmileg, fætur sterkir og endingargóðir, þótt nokkrar liðskekkjur sjáist, aðallega í aftur-kjúkuliðum. Taugakerfi þessara hrossa er gott, þau eru vitur, kjarkmikil og alvörugefin, fáskipt við manninn, en vinna störf sín af hlýðni og hrekkleysi og draga ekki af sér. Viljinn er jafngóður, og talsvert kemur fram af hrossum með ofsa fjöri, stundum með skapofsafjöri, og sækja þau það í formóðurina Óðu-Rauðku 2, sem er eitt annálaðasta fjörhross í þessu landi og með afbriðgum kynföst, enda mikil skyldleikarækt notuð með afkomendur hennar.

Blakkur gaf stóra, kröftuga og taugasterka hæfileikahesta, sem hlutu miklar vinsældir og ætt hans breiddist mjög út." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

hornfirski blakkurJón Sigurðsson í Skollagróf sagði að Blakkur hefði verið fallegri en á þessari mynd, sem var tekin af honum þegar hann var tryppi.


 

 Skuggi 201 frá Bjarnesi (f. 1937) er undan Víkingi frá Árnanesi og Litlu-Jörp frá Sandfelli. Hann er kominn á 6 mismunandi vegu af Óðu-Rauðku 2 frá Árnanesi.

Skuggi var myndarlegur og fyrirferðamikill (146 cm á hæð), ganghreinn og vel vakur töltari, mjúkur ásetu og ferðmikill, taugasterkur og alvörugefinn. Með Skugga kom nýtt blóð í Árnanesætt og með honum fluttist kraftur ættarinnar til Suðurlands á stríðsárunum og til Vesturlands á eftir-stríðsárunum.

Oft kippti afkvæmum Skugga í kyn og ekki virtist skipta máli, hversu góðar eða lélegar mæðurnar voru. Hann gaf stór og mikil hross, gróf og skriðgeng, en skeiðrúm vilja- og frekjuhross. Skuggi varð mjög umdeildur, vegna breytinga sem hann olli í hrossastofnum Suður- og Vesturlands, og var á köflum ekki mikið notaður. (Hann var svo kynfastur að menn voru hræddir um að hann myndi þurrka út öll einkenni þeirra hrossastofna sem þar fyrir voru)

Skuggi hlaut 1.verðlaun og var einnig fyrstur til að hljóta Sleipnisbikarinn (heiðursverðlaun fyrir afkvæmi) á Þingvöllum 1950.

Lýsing á Skugga: Stórbrotinn, gangmikill fjörhestur. Hefur allan gang og hreyfingar sæmilega fjaðurmagnaðar, en nokkuð skortir svif í fótaburð. Skortir fríðleika og fínleika, og skapofsi spillir honum sem reiðhesti.

Lýsing afkvæma Skugga: Þau eru væn að vexti og vel gerð, en láta lítið yfir sér. Svipurinn er látlaus, vel meðalreist, hlutföll góð, lendin er sæmilega vel vöðvuð áslend. Fætur eru þurrir og framfætur réttir, en á afturfótum ber á kjúkuliðsskekkjum. Hrossin eru dugnarðarleg og mörg búa yfir ágætum reiðhestakostum, hreyfingar eru fjölbreyttar og hreinar, taugar sterkar, lundin góð, þó ekki blíð. Vilji er að jafnaði góður, sum fjörug. Góð kynfesta.

  "Þetta var stórmyndarlegur hestur, það sópaði að honum. Hann var ganghreinn og gammvakur. Skeiðið var áberandi fallegt. Hann mun hafa verið mjög mjúkur ásetu á öllum gangi. Afkvæmi hans sem ég kynntist voru ákaflega misjöfn. Hann gaf nokkra fjölhæfa, áberandi reiðhesta. En sum afkvæma hans voru kaldlynd og jafnvel hrekkjótt. Mér fannst athyglisverðast við Skugga, að ekki virtist fara mikið eftir kostum mæðranna, hvernig afkvæmin yrðu." (Guðmundur Pétursson, Borgarnesi)

"Ég þekki töluvert afkæmi hans í Hreppunum. Gola frá Langholtskoti er mér minnisstæð. Hún og sonur hennar, Blær, eru beztu hross sem ég hef komið á bak í mínu lífi. Ég gleymi þeim ekki, meðan ég lifi. Þvílík óskapa yfirferð og vilji ... Þetta voru stór og mikil hross, nokkuð gróf sum hver. Mér eru minnisstæðir margir gæðingar svo sem; Gola frá Miðhúsum, Skuggi frá Steinsholti, Gustur frá Hæli, Trausti frá Hofsstöðum og Blakkur frá Gullberastöðum. Þetta voru kraftmikil yfirferðahross." (Sigurður Sigmundsson, S-Langholti)

"Afkvæmi Skugga frægðu mjög hestamennsku Árnesinga á sjötta áratug aldarinnar. Þá áttu Laugarvatns-feðgar (Bjarni Bjarnason, skólastjóri, og Þorkell) marga landsfræga gæðinga og vekringa undan Skugga, sem fóru sigurferðir á kappreiðar og landsmót." (Gunnar Bjarnason, Ættbók og Saga)

"Ég þekkti Skugga og ég tamdi hross undan honum, einhver viljugasta meri sem ég hef tamið, var undan Skugga. Æ, mér líkaði ekki við tryppin, sem ég tamdi undan honum, þau voru óþæg, en það komu myndarhross undan honum og sum ágæt." (Marinó Jakobsson, Skáney)

"Hann gegndi mér alveg, var kattmjúkur, þá fann ég að það var til mýkt í honum. Þetta var reglulegur skörungur, en skapgerðin hefði mátt vera betri, hann barði sig með taglinu og var með frekju, sem kanski var mönnum að kenna." (Bogi Eggertsson, Reykjavík)

"Skuggi var sérlega vörpulegur og skörulegur hestur, háreistur, en hálsinn heldur djúpur og of holdmikill. Hlutföll sæmileg, fætur þurrir og liðasterkir, en ekki vel réttir í kjúkuliðum, hófbotn siginn á framfótum. Skuggi var sérlega taugasterkur hestur og orkumikill, fjörharður og alvörugefinn, ferðamikill á öllum gangi, skriðgengur." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Út af Skugga komu hér mjög merkilegir gripir og mjög góður stofn til framhalds ræktunnar. Hesturinn var sjálfur mikill gæðingur. Stundum var reyndar verið að tala um, að hann væri vart viðráðanlegur fyrir ofríki, en ég hafði hann sjálfur undir höndum síðari hluta vetrar eða vorið 1947. Mér reyndist hann svo, að ég hefði taið hann hvers manns hugljúfa." (Símon Teitsson, Borgarnesi)

"Ég man vel eftir honum á sjötta áratugnum. Það sópaði að Ara Guðmundssyni á honum. Hesturinn var hálslangur og aðsópsmikill, frekur við karlinn. Í honum var bæði vilji og kraftur." (Einar E. Gíslason, Skörðugili)

"Svo sem kunnugt er, var Skuggi mjög hávaxinn og vel á sig kominn. Hann er óvenju góður í umgengni, hægur, stilltur og spakur. Hann er mjög viljugur, og ekki bjóst ég við, að óvanaðir hestar væru svona viljugir. Í fjórða lagi tel ég hann afbragðs töltara. Eftir mína kynningu tel ég ekki að Skuggi hafi neina teljandi galla." (Ari Guðmundsson, Borgarnesi)

"Hann var mikill reiðhestur og mikill á velli. Sennilega hefur allra sterkasta erfðin frá Skugga verið mikil skeiðrými. Óþarflega djúpur háls og afturdregin lend voru helztu lýti á byggingu hans. Mér fannst hann aldrei neitt tröllslegur, þó hann væri stór og mikill. Hinu er ekki að neita, að á sýningu á landsmóti 1950 sá ég til hans fullmikla sókn til sjálfræðis. Knapinn, Ari Guðmundsson frá Skjálpastöðum, var nokkuð vís til átakanna, ef svo bar undir, og má því segja, að þar var ramman að rjá af beggja hálfu." (Jón Sigurðsson, Skollagróf)

"Skuggi kom ótaminn hingað til mín og ég tamdi hann í tvo vetur .. hann var mjög þægur. Það er í raun og veru ekki hægt að hugsa sér hugljúfari hest en hann var hjá mér og auðsveipari. Hann var nokkuð viljugur strax og með ágætan vilja, þegar ég var síðast með hann. Það var mikil vekurð í honum, en skeiðið virtist honum þó ekki verulega eðlilegt. Þó hafði hann gott skeið, en það var aðeins of lágt.

Hann hafði hér mikil áhrif, og undan honum komu ágætir hestar - nokkrir gæðingar, en yfirleitt voru afkvæmi hans viljagóð hross, þægileg ferðahross og notaleg á margan hátt." (Steinþór Gestsson, Hæli)

"Þegar Skuggi féll, höfðu þeir Borgfirðingar svo mikið við, að þeir drukku erfi hans. Hann var heygður hjá Faxaborg, félagsheimili Faxa, og á haug hans var nýlega fluttur með ærnu erfiði klettur mikill, ein fimm eða sex tonn. Hafði Ari heitinn sótt hann fyrir allöngu austur á Kaldadal og ætlaði að láta höggva á hann þessa grafskrift, sem Símon leyfði mér að skrifa upp úr bók Skugga: "Hér er heygður einn stórbrotnasti gæðingur sögunnar, stóðhesturinn Skuggi frá Bjarnanesi, fæddur 1937, felldur 1956. Afkomendurnir bera föðurnum vitni." (Guðmundur Óli Ólafsson, Skálholti)

hornfirski skuggiSkuggi 201 frá Bjarnanesi


 

 Nökkvi 260 frá Hólmi (f. 1941) er undan Skugga frá Bjarnanesi og Rauðku frá Hólmi. Hann er einn af allra mestu ættarhöfðingjum íslenskra hrossa. Enginn hestur hefur átt eins mörg afkvæmi sem skilað hafa sér til nútímans.

Nökkvi var stór og stæðilegur (148 cm á hæð), þolinn og viljugur, skreflangur og skriðgengur, höfðingjalegur og skapljúfur, alvörugefinn og vitur.

Undan Nökkva komu lundgóð og kjörkuð hross, taugasterk og heilsugóð, bolmikil og þolgóð, fjölhæf og rúm, lággeng og mjúk, taktviss á tölti.

Gunnar Bjarnason, hrossaræktarráðunautur, keypti Nökkva tveggja vetra af Svövu Halldórsdóttur í Hólmi. Hann greiddi gríðar-háa fjárupphæð fyrir folann og tók það heila nótt að semja um hestinn.

Nökkvi var lengi í Landeyjum og síðar í Borgarfirði og átti mikinn þátt í að dreifa hornafjarðarblóði um landið. Mest voru áhrif hans á Vesturlandi og Norðurlandi, en minni á Suðurlandi og heima á Hornafirði. Nökkvi var alla ævi umdeildur og var lítið sem ekkert notaður á sumum skeiðum ævinnar.

Nökkvi var sendur í sláturhúsið af dómnefnd á Þveráreyrum 1954. Hann átti þó síðasta orðið í ættarsögunni, en ekki dómnefndin.

Nökkvi frá Hólmi var sýndur í 1.verðlaun árið 1958, auk þess sem hann hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi sama ár.

Lýsing á Nökkva: Sviphreinn, vel meðalreistur, góð hlutföll, sterkir fætur, hófasmár aftan. Skörulegur og þrekmikill reiðhestur með allan gang og góðan vilja.

Lýsing á afkvæmum Nökkva: Afkvæmi Nökkva eru svipgóð og myndarleg hross, vel í meðallagi reist eða háreist, hafa góð hlutföll, þurra fætur og sterka, en mörg hafa of smáa hófa og nokkuð ber á kjúkuliðsskekkjum í afturfótum. Viljinn er að jafnaði góður, mörg fjörug. Lundin er góð, taugar sterkar, vitur. Flest hafa hrossin allan gang og eru hreingeng, en þau skortir helzt léttleika í hreyfingar, eru skriðgeng og ferðmikil orkuhross, ágæt ferðahross og reiðhross. Kynfesta mikil.

Varla er sá hestur til á landinu í dag að hann eigi samt ekki Nökkva að forföður, nema þá hann sé rangt ættfærður.

Nökkvakyn eru enn í ræktun víða og þykir ýmsum gott að byggja nútímarækun á þessum gamla margverðlaunaða stofni.

  "Nökkva kom ég einu sinni á bak. Það var eftir hið fræga Landsmót á Þveráreyrum 1954. Við Sindramenn tókum að okkur flutning á Nökkva fyrir Valdimar í Álfhólum. Að mótinu loknu kom það í minn hlut að smala hrossagirðinguna. Nökkvi var bundinn á bás og tók ég hann til smölunarinnar. Hesturinn var stór og stæðilegur, ágætlega viljugur, og það sópaði að honum. Hann ýmist tölti eða brokkaði. Mér er þessi hrossasmölun mjög hugstæð." (Abert Jóhannsson, Skógum)

"Nökkvi var taminn ungur og reyndist auðtaminn, hann fékk strax sæmilegan vilja sem harðnaði með þroska. Lundin traust og góð, alvörugefin og vitur en ekki blíðlyndur. Nökkvi hefur ætíð verið notaður mikið til reiðar og enst vel. Árið 1960, tvítugur að aldri, var hann hraustur og glæsilegur og bar engin ellimörk.

...En þarna var sem ég skynjaði eitthvað óvenjulegt. Ég leit í svip hins unga hests og undraðist tillit folans, sem sýndi fágæta festu og traustleika í skapgerð ... fór hún af fundi mínum hestinum Nökkva fátækari, en fékk sennilega fyrir hann hæsta verð, sem greitt hafði verið fyrir tvævetling fram á þann dag í landi voru ...

Nökkvi lifði lengi og var víða notaður. Allir, sem höfðu persónuleg kynni af Nökkva frá Hólmi, fengu dálæti á þessum öðlingshesti vegna glæsileika hans, vitsmuna og gæðingskosta .. Nökkvi var virkja- og tilþrifamikill í öllum hreyfingum vegna stærðar sinnar. Þetta þótti ýmsum hestamönnum af gamla skólanum ekki nógu liprar og léttar hreyfingar, en þeir dáðu mest margir hverjir litla hnoðra." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Þegar Gunnar kemur með Nökkva í Skagafjörð, gerir Nökkvi mjög stóra hluti. Hrossaræktin í Skagafirði nýtur þess enn. Hrossin á Flugumýri og fleiri bæjum eru enn með merki þessa. Nökkvi var til mikilla bóta í óskyldum hrossum. Hornafjarðarhross voru til mikilla bóta í hrossum í Skagafirði og Eyjafirði.

Ég hef miklar mætur á hornfirzkum hrossum. Það er vegna hins mikla dugnaðar og vilja, sem við fáum þaðan. Þau eru bolmeiri og þolmeiri gegn kulda. Hornfirzku hestarnir áttu að vera dráttarhestar. Slík hross hefði verið hægt að fá alls staðar. En Gunnar fann þessi hross, sem ekki voru bara dráttarhross, bikkjur, heldur frábærir hestar að mörgu leyti. Hornafjarðarhross passa sérstaklega vel í Svaðastaðahross og Kolkuóshross, sem eru löt í eðli sínu." (Andrés Kristinsson, Kvíabekk)

"Ég kynntist mörgum afkvæmum Nökkva. Sum átti ég sjálfur og fleiri átti Einar á Skörðugili, þá á Hesti. Mér fannst þetta vera áberandi jafngóð hross, lundgóð og þó kanski ekki hlý, en hrekklaus og kjörkuð. Nökkvi og Skuggi voru taugasterkir og gáfu taugasterk hross. Langflest afkvæmi Nökkva, sem ég kynntist, höfðu fjölhæfan gang, mörg rúmt skeið, hreint og gott, en nokkur voru dálítið lággeng. Það er oft svo um mýkstu hrossin, sem eru eðlisgeng, að þau eru lággengari en hin. Við notuðum hann í skyldleikaræktinni hér. Afkvæmi hans og dætra Skugga, föður hans, voru áberandi stór og myndarleg hross og flest verulegum kostum búin. Við vildum halda til haga kostum þessara hesta, sem voru miklir ganghæfileikar, sterk skapgerð og ódrepandi þol og dugnaður.

Ég sýndi stundum skínandi góð hross undan Nökkva til dóms, mörg mjög vel tamin af Einari í Skörðugili. Nökkvi var vel vakur sem og faðir hans, Skuggi. Hinn mikli hrossarígur í þá daga spillti fyrir áliti manna á þeim feðgum.

Þegar ég lít til baka og leiði hugann að takmörkuðum kynnum af frægum stóðhestum, stendur Nökkvi efst í huga mér." (Guðmundur Pétursson, Borgarnesi)

"Ég kannaðist vel við hann. Það er ekki ofmælt, að hann var farsæll kynbótahestur og ágætur reiðhestur. Hann var með jafnan og góðan vilja, sannan þolsvilja og var þægilegur ásetu. Guðjón, bróðir minn, sem var marga vetur á Hesti hjá Einari E. Gíslasyni, bar Nökkva vel söguna í þessu efni. " (Jón Sigurðsson, Skollagróf)

"Þetta var mikill klár, það vantaði ekki, ákaflega fax- og taglprúður. Hann var ekki bolléttur, steig heldur þungt til jarðar, en skrefaði mikinn og var ákaflega rúmur á gangi. Yfir honum var höfðingsbragur, sem ég gleymi ekki." (Sigurður Sigmundsson, S-Langholti)

hornfirski nökkviNökkvi 260 frá Hólmi


 

 Jarpur 474 frá Hólum (f. 1944) var undan Nökkva frá Hólmi og Lárusar-Stjörnu frá Hólum. Hann hafði mikil áhrif á ræktun Árnanesættar í Hornafirði, svo og vestan lands og norðan, þótt hann væri ekki í miklu áliti, meðan hans naut við.

Jarpur var myndarlegur og viljugur klárhestur. Hann gaf falleg og myndarleg hross, þægilegri í skapi og auðveldari í sýningu heldur en ýmis önnur hornfirsk hross.

  "Jarpur var taminn seint, en reyndist vera viljugur klárhestur." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Hann er líklega bezti kynbótahestur, sem notaður hefur verið í Hornafirði. Út af honum eru öll kynbótahross, sem skipta máli í Hornafirði nú á tímum. Hóla-Jarpur var aldrei neitt frægur kynbótahestur á sinni tíð. Hann er eitt dæmið um, að forsjónin hefur tekið tilviljunina í sínar hendur og snúið á hornfirzka ræktunarmenn, því að hann er undan aðfenginni hryssu og Nökkva frá Hólmi, sem var ekki skyldleikaræktaður Hornfirðingur.

Undan Hóla-Jarpi komu falleg og myndarleg hross, að því er virðist þægilegri í skapi og auðveldari til sýninga en mörg önnur hornfirzk hross. Undan honum kom meðal annars Högni frá Brunnum sem var efstur klárhesta á Iðavöllum á fjórðungsmóti 1968 eða 1969. Einnig Stjarna 2911 frá Árnanesi og Elding frá Jaðri." (Jens Einarsson)


 Sleipnir 539 frá Miðfelli (f. 1957) var undan Sörla frá Borgum og Völu frá Miðfelli. Hann var viljagóður alhliða hestur, sem átti til að víxla og var ekki mjög reisulegur. Hann er einn af hreinast ræktuðu hestum aldarinnar, eindreginn Árnaneshestur á alla enda og kanta. Hann er dæmi um stofnrækt, fremur en skyldleikarækt, því margir forfeður koma við sögu í dreifðu ættartré, þótt þeir eigi flestir ættir sínar að rekja til Óðu-Rauðku 2.

Sleipnir var aðeins notaður í fjögur ár, enda fékk hann vondan dóm á sýningu eins og margir mestu ættarhöfðingjar aldarinnar. Hann gaf góða reiðhesta og gæðinga, sem entust vel. Því er haldið fram, að varla hafi brugðist nokkurt hinna fáu hrossa sem komu undan honum.

Sleipnir var sýndur á Egilsstöðum 1963 og fékk 7,88 í aðaleinkun. Dómslýsingin hljóðar svo;

Viljagóður reiðhestur með öllum gangi rúmum, en ekki ganghreinn, brokkar þó mjög vel. Góðir fætur og bygging, að öðru leyti en því, að háls er fremur lútur.

  "Síðasti óumdeilanlegi gæðingafaðirinn í Hornafirði er Sleipnir 539 frá Miðfelli, fæddur 1957 og notaður í 3-4 ár, en þá geltur, og er það án efa eitt stærsta ræktunarslys í sögu hrossaræktar á Íslandi, því með ólíkindum er, hve margir gæðingar komu úr litlum afkvæmahóp. Skal þá fyrst fræga telja Skúm og Létti frá Stórulág, Svölu frá Brunnum, Glettu frá Gerði og Vöku frá Borgum. Mörg fleiri góð hross væri hægt að telja upp, og óhætt að fullyrða, að vara hefur nokkurt hross brugðist undan þessum hesti." (Jens Einarsson)

"Ég kom á bak honum. Hann var viljugur, mjúkgengur, með allan gang, en víxlaði aðeins. ég hefði átt að kaupa hann. Sennilega var hann úrvals góður kynbótahestur, sem gaf miklu betri afkvæmi en hann var sjálfur." (Einar E. Gíslason, Skörðugili)

"Hann var geltur of snemma og hefur verið vanmetinn sem kynbótahestur. Þegar ég skoða hross, sem undan honum eða útaf honum eru komin, sé ég, að þau hefðu gjarnan mátt vera fleiri." (Kristinn Guðnason, Skarði)

"Einhver bezti stóðhestur síðari tíma í Hornafirði var Sleipnir frá Miðfelli, það hefur reynslan sýnt. Mér leist að mörgu leiti vel á Sleipni. Hann var ekki reisulegur, en prúður og ágætlega viljugur og mikill reiðhestur. Það sem mér líkaði ekki við hann var að hann var ekki ganghreinn, átt það til að víxla. Mér þótti þetta töluverður galli. ... og það er annað, að þessir hestar, eins og Svipur á Jaðri og Sleipnir í Miðfelli og fleiri, þeir eru í fullri brúkun alveg undir þrítugt. Þetta er þriðjung meiri ending en gengur og gerist með aðra hesta og það er ekki svo lítils virði." (Þorkell Bjarnason, ráðunautur)

hornfirski sleipnirSleipnir frá Miðfelli, knapi er Haraldur Torfason.


 

Skúmur frá Stórulág er líklega frægasta afkvæmi Sleipnis 539, en Skúmur sigraði A-flokk gæðinga á Landsmótinu 1978 á Skógarhólum, auk þess að vera tvisvar efstur í A-flokk á Fjórðungsmóti.


Stjarna 2911 frá Árnanesi (f. 1950) var undan Hóla-Jarp og Palla-Stjörnu frá Árnanesi. Hún er þekktust fyrir að vera móðir Hrafns frá Árnanesi.

Stjarna var fjörmikil forystuhetja, gangrúmt klárhross með drifa-tölti. Hún er gífurlega mikið hreinræktuð af Árnanesætt.

Stjarna 2911 gaf fögur og fangreist klárhross, sjóðandi viljug.

Stjarna hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi í Hornafirði 1977.

Þau eru fangreist og úrvalsfalleg hross, þótt fótgallar hafi sézt á þeim. Þau eru nær öll klárhross með rúmu tölti og viljinn oftast sjóðandi mikill.

  "Hún er vel sköpuð gæðingshryssa, klárhross með rúmum hreyfingum og drifatölti. Stjarna er kjarninn í Árnanes-stofninum á tímabilinu 1960-1980. Stofneinkennum er glögglega lýst í umsögn dómnefndar 1977 á afkvæmum hennar. Þessi margslungna skyldleikarækt hefur í fyrsta lagi sýnt, að alvarlegir gallar og veiklun eru ekki í eðli þessara hrossa, en auk þess er fjöreiginleikinn mjög arfhreinn, og hið arfgenga hreyfingaeðli er brokk og tölt, lullgengni þarf ekki að óttast, en fáist hrossin á vekurð, þá má reikna með drifavekurð .. Þá er hið hástemmda fjör mengað nokkru ergi, sem býr í skapgerð hrossanna, sem kemur fram í ferðabyrjun sem eins konar ferðakvíði, þau stikla með óróa, slá tagli og virðast búa yfir þvermóðsku, en eftir litla stund jafna þau sig, slaka á og taka á rás, og því lengra sem farið er, því þjálli og meðfærilegri verða þau. Allt er þetta kynfastur arfur frá ættmóðurinni Óðu-Rauðku 2. Hins vegar eru svo margslungnir gæðingakostir í þessari hryssu og erfðafræðilega samanþjappaðir með skyldleikarækt, að frá því sjónarmiði séð er Stjarna 2911 einhver verðmætasti erfðasjóður ízlenskrar hrossaræktar á seinni hluta 20.aldar. Að dómi höfundar þessa ritverks hefði hún átt að dæmast í sérflokk." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Hún var falleg og farsæl. Hún var lítið tamin, var alltaf í forustu í stóðinu, rann á undan því. Hún var mikil hetjuhryssa." (Einar E. Gíslason, Skörðugili)

"Ég sá hana fullorðna í Árnanesi. Hún var tvímælalaust myndarleg hryssa. Góðir hæfileikar komu fram í sumum afkomenda hennar." (Sigurður Sigmundsson, S-Langholti)

"Enn rísa afkomendur hennar hátt í ræktuninni" (Kári Arnórsson)

hornfirski stjarna
Stjarna 2911. Á báðum myndum er Guðjón Jónsson í Árnanesi við/á hryssunni. Á vinstri myndinni er Stjarna orðin 18.vetra.


 

Hrafn 583 frá Árnanesi (f. 1960) var undan Krumma frá Borgum og Stjörnu 2911 frá Árnanesi.

Hrafn var skapmikill klárhestur, reistur og fasmikill, viljugur og kjarkaður. Hann er óskaplega mikið hreinræktaður Árnaneshestur og er einn þeirra hesta sinnar kynslóðar, sem hafa langstærsta ættartréð að baki sér.

Hrafn gaf viljuga klárhesta og Ófeig 818 frá Hvanneyri.

Hrafn fékk 1.verðlaun 1968 og 1.verðlaun fyrir afkvæmi árið 1970.

Dómsorð um Hrafn 583: Höfuð sterklegt, augu fremur smá, svipur festulegur, en yfirlætislaus, háls reistur, en þykkur, fætur nær réttir, en kjúkur full sveigðar. Fjörmikill, óbilugur og stæltur klárhestur með miklu, en ekki fíngerðu tölti.

Afkvæmi Hrafns 583: Þau eru með reistan, en full djúpan og þykkan háls, sívalan og léttan bol, en fullstutta og flata lend. Fætur eru traustir og fallegir, en hjá sumum kemur þó fram of gleið afturfótastaða. Þau eru viljahá, skapmikil, en ekki óþjál. Aðalgangur þeirra er ferðmikið brokk og tölt.

  "Svipmikill, hlutfallagóður, fótagóður og harðviljugur klárhestur með tölti." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Hrafn fékk ýmis tækifæri sem stóðhestur. Hann fór ungur vestur í Borgarfjörð og var ekki notaður að ráði í Hornafirði aftur, fyrr en hann var orðinn harðfullorðinn. Ég man vel eftir honum sem ungum hesti, þegar hann var í tamningu í Borgarfirði, og mikið var þetta nú viljugur og efnilegur foli. Vörður, bróðir hans, var þá einnig á Hesti, og mikið hafði maður gaman af að koma á bak þessum hestum fyrir það, hvað þeir voru viljugir og reistir og prúðir og fasmiklir." (Þorkell Bjarnason, ráðunautur)

"Ég sá mjög oft til hans. Hann var dæmigerður Hornfirðingur, með þennan yfirburða vilja, sterkan og kjarkaðan, dálítið grófur í byggingu, þótt hún væri að ýmsu leiti góð. Samræmið var gott. Hann var sérlega vel reistur, raunar eðlisreistur. Feiknarviljinn var hans sterkasta tromp, því hann var einhæfur á gangi." (Sigurður Haraldsson, Kirkjubæ)

"Hann var vænn á vöxt og fallegur á velli, viljugur klárhestur." (Jón Sigurðsson, Skollagróf)

"Hrafn hefur reynst ærið misjafnlega. Helzt er það skapið, sem spillir afkvæmunum, en þó hafa líka komið undan honum góðir reiðhestar og viljugir klárhestar með tölti, sem hafa verið einfaldir í notkun fyrir almenna hestamenn. Nokkrir afrekshestar hafa komið undan honum og er þar frægastur Ófeigur 818 frá Hvanneyri." (Jens Einarsson)

"Hann var töluvert notaður hér í Borgarfirði. Þetta var fyrst og fremst viljugur klárhestur, skapmikill nokkuð, en skapið þó mjög sveigjanlegt. Hann skildi ekki mikið eftir sig hér í Borgarfirði, að undanskildum Ófeigi frá Hvanneyri." (Guðmundur Pétursson, Borgarnesi)

"Eitthvað mikið var við þennan hest. Ég hef kynnzt og komið á bak nokkrum afkvæma hans. Við áttum nokkrir saman Gulltopp, son hans. Hrafn var greinilegur viljahestur, prúður og fasmikill í reið. Hann var fyrir sér í skapi, svo sem töluvert hefur komið fram í afkvæmum hans sumum hverjum. Hann hefur markað drjúgmikil spor í hrossaræktinni. Sonur hans, Ófeigur 818, stendur þar hvað hæst." (Sigurður Sigmundsson, S-Langholti)

“Afkvæmi Hrafns sem til voru í Árnanesi voru algjörlega sjálftamin ef maður hafði bara vit á því að láta þau í friði. Þau dömluðu svo bara af stað með mann í rólegheitum og maður bara beið eftir þeim. Þannig er það reyndar með flesta Hornfirðinga, það þýðir ekkert að krefja þau of snemma, þá getur maður fengið þau á móti sér, og þá er voðinn vís.” (Hanný Norland Heiler, tamingamaður í Árnanesi 1987-1989)

hornfirski hrafnHrafn 583 frá Árnanesi


 

 Faxi 646 frá Árnanesi (f. 1963) var sonur Hrafns 583 og Dúa-Brúnku frá Árnanesi. Honum var lýst sem: Hæfileikamikill og fjörugur reiðhestur, en til lýta telst hve gleiðgengur hann er að aftan. Er það arfur frá föðurföðurnum, Stranda-Jarp, sem var afi Sjörnu 2911, sem er tvöföld amma Faxa. Benedikt í Dilksnesi hafði eftirfarandi orð um Stranda-Jarp: "Hann er nú svo gleiður að aftan, að það þarf að biðja vegasjóð að breikka fyrir hann vegina hérna í Nesjum". Þessi gleiðgengni var talin nokkuð lýti, en ekki veikleiki.

hornfirski faxiFaxi 646 frá Árnanesi, Palli í Árnanesi er með honum á báðum myndum.


 

 Skór frá Flatey (f. 1970) var undan Faxa frá Árnanesi og Mön frá Flatey. Hann hlaut 8,30 fyrir hæfileika og fékk umsögnina: Stórglæsilegur, og höfðingjalegur gæðingur.

hornfirski skorSkór frá Flatey. Knapi er Benedikt Líndal Þorbjörnsson.


 

 Ófeigur 818 frá Hvanneyri (f. 1968) er undan Hrafni frá Árnanesi og Skeifu frá Kirkjubæ. Ófeigur var sonur klárhests og skeiðhryssu. Hann var sýndur 6 vetra gamall og hlaut þá 8,30 fyrir sköpulag, 8,80 fyrir hæfileika og 8,55 í aðaleinkun. Hæfileikadómur Ófeigs státar af 8,5 fyrir alla þætti hæfileika nema 9 fyrir tölt og fegurð í reið og svo 9,5 fyrir skeið.

Dómslýsing: Fallegur og fjölhæfur, flugvakur gæðingur, viljamikill.

Hann gaf fjörviljug og fjölhæf hross, fínleg og hágeng, skapmikil og harðfylgin, fremur ófríð og sum faxrýr. Hann gaf bæði toppa og botna.

Ófeigur fékk heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Hellu 1986.

Þau eru þróttlega byggð, en ekki fínleg eða fríð, oft óprúð á fax og ennistopp og jafnvel tagl. Stærð er ágæt, háls er fremur grannur og vel settur við háar herðar, en í dýpra lagi, ásamt brjósti og bol, sem gerir bygginguna oft full þunga. Bak er lítið sveigt, lendin öflug, ekki löng. Fætur traustir, oft útskeifir framan. Þau eru harðgerð í lund, viljamikil, oft fjörug, með mikinn, alhliða gang, góðan fótaburð og langt afturfótastig. Harðsnúin vilja- og ganghross með hrausta, en ekki fríða byggingu.

hornfirski ofeigur1 Ófeigur 818 með afkvæmum

  "Framtíð hans var strax ráðin. Þarna var loks fæddur draumahesturinn minn. Þetta folald var óvenjulegt. Gunnar Bjarnason sagði við mig: "Þetta er rakið stóðhestsefni, það efnilegasta sem ég hef séð í langann tíma.

... trippið hleypur frá hestunum í girðingunni, stekkur á hliðið, en kemst ekki alla leið yfir. Afturfæturnir festast og þegar hliðið gefur eftir og folinn veltur eftir grófum vegi, er hann ekki sá sami og áður. Mjaðmarhornið öðru megin hafði mulizt. Um haustið var hann búinn að jafna sig að öðru leyti en því að slaki hafði myndazt, þar sem mjaðmarhornið hafði áður verið. Þetta virtist sem sagt ekki há honum. Hann hlaut því nafnið Ófeigur." (Sigurborg Á. Jónsdóttir, Báreksstöðum)

"Ófeigur er settur saman úr tveimur mestu andstæðum, sem hugzast getur í hrossaræktinni, Kirkjubæjarmóður og Hornafjarðarföður. Úr þessu kom býsna fallegur hestur, eftirtektarverður, mikill getuhestur og viljugur. Afkvæmin undan honum eru mjög breytileg vegna andstæðnanna í ættum Ófeigs. Annars vegar eru mörg afgerandi góð hross, þar á meðal þó nokkrir toppar, mikil viljahross, en einnig margt miklu lakara. Ekki hefur verið á honum nein skipulögð notkun, en hún hefur samt verið mikil. Ófeigur hefur komið mjög vel út í Hornafirði. Þar hafa komið fram nokkur áberandi hross undan honum." (Jóhann Þorsteinsson, Miðsitju)

"Hann er undan þessari frægu og drifvökru hryssu og hreinum klárhesti. Því er ekki að undra, þótt þessara andstæðna gæti að nokkru í afkvæmum hans." (Jón Sigurðsson, Skollagróf)

"Þeir fengu báðir há fyrstu verðlaun, Ófeigur 8,55 og Hrafn 8,56. Þessi eina komma varð til þess, að sá fyrrnefndi féll í skuggann fyrir hinum. Enginn veitti því á hinn bóginn athygli, að því er virtist, að Ófeigur er miklu betur ættaður. Hann var hafður í lélegum merum í Borgarfirði lengi vel á meðan hinn fór eins og stormsveipur um landið. Hvað hefði gerzt, ef Ófeigur hefði verið einni kommu hærri en Hrafn? Við höfum kynnzt því, að Ófeigur er mjög góður kynbótahestur." (Jón Bergsson, Ketilsstöðum 1988)

"Afkvæmin hans Ófeigs hafa heillað mig meira en flest önnur hross. Nægir þar að nefna hesta eins og Flosa frá Brunnum, sem sýndi á landsmótinu á Hellu meiri hæfileika en nokkur annar stóðhestur hefur gert. Nú, eða tilþrifin hjá henni Hildu frá Ólafsvík. Og enginn getur gleymt því, þegar þau Bragi Andrésson og Perla frá Kaðalsstöðum gösluðu um Vindheimamela 1982. Ófeigur skilar án efa þróttmeiri, viljugri og harðfylgnari hrossum heldur en nokkur annar stóðhestur. Afkvæmi hans eru myndarleg, en yfirleitt ekki fríð, í það minnsta ekki smáfríð. Og ég held, að þau geri ekki mikið af að brosa. Fáa galla hef ég séð hjá afkvæmunum hans Ófeigs. Er þar helst að nefna, að af heiðursverðlaunahesti að vera, þá finnst mér tagl sumra afkvæmanna óþarflega loðið. En þó held ég, að megi bæta þar nokkuð úr með því að eðla saman afkvæmum Ófeigs og Náttfara." (Andrés Kristinsson, Kvíabekk)

"Ófeigur var óskaplega lifandi og glatt trippi. En þó var alltaf eitthvað yfir hausnum og haussvipnum, sem ég hef ekki fellt mig við. Hann er ekki nógu fríður, þótt hann sé vel byggður. En hann var einstakur gæðingur og kom fljótt í tamningu. Hann var skapmikill og frekgeðja. Hann gefur afkasta- og viljahross, blendin í skapi og frek. Hann er með allt annað ganglag en faðirinn, Hrafn 583 frá Árnanesi, sem var klárhestur með tölti. Ófeigur er rúmur, alhliða gæðingur, mikill viljahestur." (Einar E. Gíslason, Skörðugili)

"Ég var dálítið hrifinn af honum, hann var mjög góður, þegar ég prófaði hann fyrst hjá Braga Andréssyni. Og fannst mér þá, að hann hefði átt að standa aðeins ofar en Hrafn. Ég hef kynnzt nokkrum góðum hrossum undan honum, fjörviljugum og fjölhæfum, en sum eru faxrýr. Svo hef ég heyrt misjafnt um önnur afkvæmi hans." (Einar Höskuldsson, Mosfelli)

"Hann gefur viljamikil og krafmikil hross og fékk þann dóm, að hann gæfi viljugust hross allra afkvæmadæmdra stóðhesta." (Kári Arnórsson, Reykjavík)

"Ráðunautur sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að útrýma þyrfti áhrifum Ófeigs frá Hvanneyri úr hrossaræktinni. Geðslag afkvæmanna væri óhæft. Nokkuð er til í því. Hross út af Ófeigi eru ekki nema fyrir lengra komna, eins og ágætir vinir mínir í Hornafirði orða það.

Mér koma þessi orð ráðunautarins alltaf í hug þegar afkvæmi og afkomendur Ófeigs skara fram úr og sýna muninn á alvöru hesti og leikfangahesti." (Jens Einarsson, 2008)

hornfirski ofeigur1 Ófeigur 818 frá Hvanneyri

Um afkomendur Ófeigs 818:

"..þetta eru hross sem gefa manni ógleymanlegar stundir. Þegar þau eru í skapi til að ganga nokkra hringi á keppnisvelli eru fá hross sem standa þeim snúning. Þeir sem láta skapið í Ófeigshrossum fara í taugarnar á sér ættu ekki að koma nálægt þeim. Það gerir vont verra. Lengra komnir mættu hins vegar standa betur við bakið á þessari ætt og leiða meira undir þó stóðhesta sem ennþá eru til af þessum meiði." (Jens Einarsson, 2008)

“Ég man ekki eftir neinu lélegu hrossi undan Ófeigi í Hornafirðinum, ekki heldur mjög erfiðu. Hann átti ekki mörg afkvæmi þar, en þar af var mjög hátt hlutfall gæðinga: Vigga frá Gerði, Hrefna frá Höfn, Flosi frá Brunnum, Styrmir frá Viðborðsseli (Evrópumeistari í fimmgangi) og fleiri skörungar. Ófeigur hefði átt að “eiga heima” í Hornafirðinum.” (Hanný Norland Heiler, tamningamaður í Hornafirði í 26 ár)

Meðal afkvæma Ófeigs 818 má nefna:

hornfirski perla fra kadalsstodumPerla frá Kaðalsstöðum

"Þeir sem eru farnir að reskjast mun vel eftir Perlu frá Kaðalstöðum, sem stóð efst í elsta flokki hryssna á LM1982 á Vindheimamelum. Sýningin á henni var kannski ekki sniðin fyrir kvöldverðarboð í Buckinghamhöll, en skeiðgripin, höfuðburðurinn og fjörið létu engan hestamann ósnortinn." (Jens Einarsson, 2008)

Ófeigsdóttirin, Perla frá Kaðalsstöðum 1, vakti mikla athygli á Vindheimamelum 1982, en þar hlaut hún 8,80 fyrir hæfileika og þar af 10 fyrir vilja, 9 fyrir skeið og fegurð í reið og 8,5 fyrir tölt. Perla er einnig þekkt fyrir að vera móðir stóðhestsins Pilts frá Sperðli, en hann hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi og á 747 skráð afkvæmi í Feng.


Sjálfur hlaut Piltur 8,33 í aðaleinkun, sem skiptist í 8,13 fyrir sköpulag og 8,53 fyrir hæfileika. Hæfileikaeinkunn hans skiptist í 9 fyrir skeið, 8 fyrir geðslag og 8,5 fyrir alla hina þætti hæfileikadómsins.

hornfirski hrefna fra hofnPiltur frá Sperðli með afkvæmum árið 1996.


hornfirski hrefna fra hofn

Hrefna frá Höfn, knapi er Björn Þorsteinsson

Hrefna frá Höfn var undan Ófeigi og hinni alhornfirsku Dekkju frá Fornustekkum. Hrefna hlaut sinn hæsta dóm á Landsmótinu á Gaddastaðaflötum 1986, en þar fékk hún 7,91 fyrir sköpulag, 8,53 fyrir hæfileika og aðaleinkun upp á 8,22. Hæfileikarnir skiptust í 9 fyrir vilja, 8 fyrir geðslag og 8,5 fyrir aðra þætti.


hornfirski hilda fra olafsvik

Hilda frá Ólafsvík, knapi er Sigurbjörn Bárðarson

Hilda frá Ólafsvík vakti hvar sem hún kom fram mikla athygli fyrir mikinn fótaburð, vilja og fas.

Hún hlaut 1.verðlaun á Fjórðungsmótinu í Reykjavík, 1985 og skiptust einkunni hennar í; sköpulag: 8,01, hæfileikar: 8,30 (þar af 9 fyrir tölt) , samtals: 8,16. Hilda var farsælt keppnishross og stóð meðal annars efst í sínum flokki á Evrópumótinu 1985.

"Sigurbjörn Bárðarson sat hryssuna Hildu frá Ólafsvík á kynbótasýningu sem nú var í fyrsta skipti meðal atriða í Evrópumóti. Hilda var eina hrossið sem íslendingarnir fóru með til að taka þátt í þessari sýningu. Hún stóð efst af hryssunum og vakti mikla athygli. Margir töluðu um hana sem besta hrossið á þessu Evrópumóti. Við sem heima sátum munum eftir henni frá Fjórðungsmóti Sunnlendinga sem haldið var í Reykjavík í sumar en þar lenti hún í 2. sæti í flokki einstakra hryssa 6 vetra og eldri." (Gylfi Þorkelsson, 1985)


hornfirski mani fra ketilsstodum

Máni frá Ketilsstöðum

Máni 949 frá Ketilsstöðum var stóðhestur undan Ófeigi 818 og Fálu frá Ketilsstöðum. Hann hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmótinu á Gaddastaðaflötum árið 1986 og segir um afkvæmi hans:

"Afkvæmi Mána 949 eru stór og myndarleg, en ekki fíngerð. Svipurinn lýsir traustleika og rósemi, augnaumbúnaður með hörðum skýrum línum, þó opinn og glaður. Háls er langur, djúpur, en þunnur, vel meðalreistur við háar herðar. Dýpt frambyggingar er nokkuð mikil, en lengd á bol léttir samræmið. Síður eru heldur flatar, bakið beint, einkum spjaldhryggur, lendin brött, jöfn, sterk, áslaga. Fætur eru allvel réttir, þurrir og sterkir, góð skil milli leggja og sina, hófar góðir. Gangur er fjölhæfur, brokk og tölt og skeið allrúmt, fótaburður öflugur, temjast vel, en sum afkvæmin verða þó of frek í vilja. Máni 949 hlýtur 8,00 stig fyrir 6 afkvæmi og 1. verðlaun."

Sjálfur hlaut Máni 8,01 í aðaleinkun.

hornfirski muni fra ketilsstodum

Muni frá Ketilsstöðum, knapi er Trausti Þór Guðmundsson

Meðal þekktra afkvæma Mána má nefna Muna frá Ketilsstöðum sem meðal annars sigraði A-flokk gæðinga á Landsmótinu 1990. Muni var einnig með 9,5 fyrir tölt í kynbótadómi.

Í móðurætt Muna kemur líka inn Hornfirskt blóð í gegn um Skugga frá Bjarnanesi sem er MFMF og FFMF.

"Loks kom að því að alhliða gæðingur næði yfir níu í einkunn í gæðingakeppni. Þar var að verki Muni frá Ketilsstöðum þegar hann var sýndur í gæðingakeppni Harðar sl. fimmtudag. Hlaut hann 9,02 í einkunn og voru menn sammála um að þar hafi ekki verið of hátt gefið. Eftir því sem næst verður komist mun þetta í fyrsta skipti sem A-flokkshestur nær einkunn yfir níu." (Morgunblaðið 12.júní 1990)

"Það hefur lengi verið vitað að Muni væri yfirburða hestur og nú þegar hann er níu vetra gamall virðist hann vera að springa út. Að sjálfsögðu sigraði hann í Aflokki og var hann í algerum sérflokki." (Morgunblaðið 12.júní 1990)


adall fra nyjabae

Aldís frá Nýjabæ með afkvæmum.

Aldís frá Nýjabæ var undan Ófeigi 818 og Nótt frá Nýjabæ. Hún hlaut 8,06 í aðaleinkun árið 1980, sem skiptist í sköpulag: 7,89 og hæfileika: 8,23. Aldís hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi árið 1992 og segir um þau:

"Afkvæmi Aldísar 4616 eru ríflega meðahross að stærð, flest eru þau með fremur vel gert höfuð og frambyggingu, þokkalegt bak og öfluga, þúfulaga lend, samræmi í meðallagi. Til beggja átta bregður með byggingu fóta, einkum eru hófarnir efnislélegir á sumum afkvæmanna. Gangurinn er alhliða, töltið þó mest sem er iðulega rúmt og glæst, stökkið greitt. Vilji og lundarfar er gott og afkvæmin fara vel í reið."

adall fra nyjabaeAðall frá Nýjabæ, knapi er Þórður Þorgeirsson

Þess má geta að Furða frá Nýjabæ, dóttir Aldísar, er móðir hins þekkta Aðals frá Nýjabæ, sem hlaut á sínum tíma 8,64 í aðaleinkun, þar af 8,97 fyrir kosti með 9 fyrir tölt og brokk og 9,5 fyrir skeið. Aðall hefur einnig hlotið 1.verðlaun fyrir afkvæmi og sagði í dómsorðunum "Aðall gefur prúða, jafnvíga alhliðagæðinga. Aðall hlýtur fyrstuverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið."

Aðall er töluvert Hornfirskur, en í honum má einnig finna Faxa frá Árnanesi sem MFMF og í gegn um FF hans, Hrafn frá Holtsmúla, kemur Nökkvi frá Hólmi. Og svo eins og áður sagði Ófeigur frá Hvanneyri MMF.


Flosi 966 frá Brunnum (f. 1977) er undan Ófeigi frá Hvanneyri og Svölu frá Brunnum. Svala 1 verðlauna hryssa undan Sleipni frá Miðfelli og Irpu frá Brunnum sem var síðan undan Hóla-Jarpi (F: Nökkvi, FF: Skuggi).

Flosi hlaut sinn hæsta dóm árið 1986, en þá hlaut hann 7,93 fyrir sköpulag, 8,56 fyrir hæfileika og 8,24 í aðaleinkun.

  "Flosi frá Brunnum, sýndi á landsmótinu á Hellu meiri hæfileika en nokkur annar stóðhestur hefur gert." (Andrés Kristinsson, Kvíabekk)

"Menn muna líka eftir því þegar Flosi frá Brunnum jós ryki yfir Hrafnssynina Viðar frá Viðvík og Adam frá Meðalfelli á LM1986 á Hellu. Það var neyðarlegt. Þeir voru eins og brauðhleifar á vellinum í samanburði við Flosa." (Jens Einarsson, 2008)

Flosi hlaut 2 verðlaun fyrir afkvæmi á Fjórðungsmótinu á Stekkhólma 1989.

"Afkvæmi Flosa eru meðalhross að stærð (143,2 sm.) þau hafa fremur vel gert höfuð, eru vel meðalreist, háls þó full djúpur, herðar háar. Bakið er beint, lendin nokkuð hallandi, öflug, bolur djúpur ekki langur. Fætur heldur traustir, en snúnir í kjúkum og stundum snoðnir og þá ekki fallegir. Hófar eru prýðilegir en stundum eru þeir þröngir. Afkvæmin eru mikil viljahross en í lundinni kemur stundum fram alvarleg kergja. Gangur er fjölhæfur og rúmur, töltið best, stökkið snarpt. Flosi gefur þunga og ekki fríða reiðhestsbyggingu en þróttmikill vilji og fjölhæfni einkenna hópinn. Flosi hlýtur 7,87 stig í aðaleinkunn fyrir 6 afkvæmi og önnur verðlaun."

hornfirski flosiFlosi frá Brunnum, knapi er Einar Öder, nema á mynd 3 (frá vinstri) Björn Þorsteinsson.

Meðal afkvæma Flosa má nefna:

hornfirski flosi

Kópur frá Mykjunesi

Kópur frá Mykjunesi var sonur Flosa 966 og Kollu frá Gerðum. Í Kollu má finna Hornfirskt blóð sem kemur í gegn um föður hennar, Ófeig frá Flugumýri, en Jarpur frá Hólum er bæði FFF og FMF Ófeigs. Móðir Jarps er svo undan Nökkva gamla frá Hólmi.

Kópur var sýndur á Fjórðungsmótinu á Fornustekkum 1995 og hlaut þar 7,85 fyrir sköpulag, 8,51 fyrir hæfileika (þar af 9,5 fyrir vilja) og aðaleinkun upp á 8,18.

muskamuska1

Muska frá Viðborðsseli 1, dóttir Kóps frá Mykjunesi 


 Lamba frá Lambleiksstöðum var dóttir Flosa 966 og Vöku frá Lambleiksstöðum, sem var mikill Hornfirðingur. Lamba hlaut á sínum tíma 8,04 í aðaleikun, þar af 8,44 fyrir hæfileika með 9 fyrir vilja, 8,5 fyrir tölt brokk og stökk og 8 fyrir aðra þætti. Lamba skilaði 3 afkvæmum með 1.verðlaun fyrir hæfileika.hornfirski gustur

Fiðla frá Garðabæ

Fiðla frá Garðabæ var undan Flosa frá Brunnum og Gnótt frá Brautarholti. Hún hlaut hæðst 8,11 í aðaleinkun. Þar af 8,40 hæfileika sem samanstóð m.a. af 9 fyrir vilja, 8,5 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið.

Fiðla hefur skilað nokkrum 1.verðlauna afkvæmum og má þar á meðal nefna stóðhestana Tón frá Auðsholtshjáleigu (hæfileikar: 8,40) og Djass frá Garðabæ (hæfileikar: 8,44), sem báðir eru farnir af landi brott.

hornfirski gustur

Djass frá Garðabæ, sonur Fiðlu hér að ofan. Faðir hans er Keilir frá Miðsitju sem ber einnig í sér Hornfirskt blóð í gegn um föður sinn, Ófeig frá Flugumýri, en FF og MF Ófeigs er Jarpur frá Hólum. Knapi á myndunum er Sigurður Óskarsson.


Gustur frá Grund (f. 1988) er sonur Flosa frá Brunnum og Flugsvinn frá Bræðratungu. Hann hlaut sinn hæsta dóm árið 1997 og fékk þá 7,88 fyrir sköpulag, 8,69 fyrir hæfileika og 8,28 í aðaleinkun. Þess má geta að Gustur hlaut 10 fyrir brokk og 9,5 fyrir bæði tölt og vilja.

Gustur var seldur til Þýskalands árið 2001. Mörgum fannst útflutningur Gusts ótímabær þar sem hann þótti mikill ræktunargripur og hefur heyrst að það hafi verið eitt mesta ræktunarslys í sögu íslenska hestsins.

Um syni Gusts frá Grund:

"Í fersku minni er sigurvegari alhliða gæðinga á tveimur Landsmótum, Geisli frá Sælukoti. Sonur Gusts frá Grund, Flosasonar frá Brunnum, Ófeigssonar frá Hvanneyri. Litlu munaði að bróðir hans, Kolskeggur frá Oddhóli, fetaði í fótspor hans á nýliðnu Landsmóti. Með tölt, skeið og vilja eins og alvöru gæðingi sæmir. Annar Gustssonur, Gustur frá Lækjarbakka, varð efstur í ungmennaflokki hjá hinum bráðefnilega knapa Gretti Jónassyni." (Jens Einarsson, 2008)

Myndbandið hér að ofan var tekið af Gusti frá Grund þegar hann var kominn yfir tvítugt.

hornfirski gusturGustur frá Grund

Meðal afkvæma Gusts má nefna:

kolskeggur fra oddholi

Kolskeggur frá Oddhóli, knapi er Sigurbjörn Bárðarson.

Kolskeggur frá Oddhóli er undan Hrafnsdótturinni, Golu frá Brekkum, en það gerir hann sammæðra Grun frá Oddhóli (sigurvegara í tölti á Landsmótinu 2006). Í Golu frá Brekkum kemur aðeins fyrir Hornfirskt blóð í gegn um gegn um Hrafn frá Holtsmúla, en MFF hans er Nökkvi frá Hólmi.

Í kynbótadómi hefur Kolskeggur hlotið 8,29 fyrir sköpulag, 8,45 fyrir hæfileika og 8,39 í aðaleinkun. Auk þess að hafa staðið sig frábærlega í keppni og hefur hann verið í úrslitum í A-flokk á landsmóti. Árið 2008 var hann efstur í A-úrslitum og mjög sigurstranglegur en því miður datt undan honum skeifa og hann þurfti að hætta þátttöku fyrir skeiðið. Undan Kolskegg hafa komið fram þónokkur 1 verðlauna hross.


 Geisli frá Sælukoti er undan Gusti frá Grund og Döfnu frá Hólkoti. Hann er frægur fyrir að hafa tvisvar unnið A-flokk á Landsmóti. Fyrst 2004 og svo aftur 2006.

Geisli frá Sælukoti, tvöfaldur landsmótssigurvegari. Knapi er Steingrímur Sigurðsson.

Í kynbótadómi er Geisli með 8,28 í aðaleinkun, sem skiptist í 7,85 fyrir sköpulag og 8,57 fyrir hæfileika.

Síðustu ár hafa verið að koma fram eftirtektarverð hross undan Geisla. Má þar á meðal nefna:

  • Gróði frá Naustum (8,91 fyrir hæfileika og í úrslitum í A-flokk á LM2014 með 9,02),
  • Sif frá Helgastöðum, sem hefur hlotið 8,85 fyrir hæfileika og skartar þar 9,5 fyrir fegurð í reið og 9 fyrir tölt, skeið og vilja og geðslag. Hún hefur einnig vakið athygli á keppnisbrautinni og skorað upp í 7 í fimmgang og 7,50 í tölti
  • Nagli frá Flagbjarnarholti er með 8,70 fyrir hæfileika, þar af 9 fyrir tölt, brokk, skeið og vilja og geðslag. Nagli var í A-úrslitum í A-flokk á Landsmótinu 2014 með einkunina 8,91.
  • Klara frá Ketilsstöðum er undan Geisla frá Sælukoti og Gustsdóttur frá Grund og því undan hornfirskt ættuðum systkinum. Hæsti dómur Klöru hljóðar upp á 8,32 í aðaleinkun, þar af 7,89 fyrir sköpulag og 8,60 fyrir hæfileika. Með m.a. 9 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið.

Jódís frá Ferjubakka

  • Jódís frá Ferjubakka, Geisladóttir. (8,54 fyrir hæfileika, þar af 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið). Jódís hefur einnig staðið sig mjög vel í keppni.Í móðurætt má finna Hornfirðinga lengra aftur, en þar er t.d. Feykir frá Árnanesi MFMMF og, MFFMFFMFF og MMFFMFF er Nökkvi frá Hólmi. 

ottar fra hvitarholtiÓttar frá Hvítárholti setinn af eiganda og ræktanda sínum, Sússönu Ólafsdóttur.

Óttar frá Hvítárholti er undan Gusti frá Grund og Óttu frá Hvítárholti, en í Óttu má lengra aftur í ættir finna Kolkuósblóð ásamt Hornfirðingum í gegn um Hrafn frá Holtsmúla. Óttar er stóðhestur með 8,36 í aðaleinkun sem skiptist í 7,87 fyrir sköpulag og 8,69 fyrir hæfileika. Óttar hefur skorað yfir 8,50 í bæði A- og B-flokk (talandi um að vera jafnvígur) og hefur verið í B-úrslitum á Landsmóti. Óttar hefur nú þegar skilað nokkrum 1.verðlauna afkvæmum.

hornfirski adam fra aldenghoor

Adam frá Aldenghoor. Knapi til vinstri er Jolly Shrenk og hægra megin er það Steffi Amand sem situr hann.

Adam frá Aldenghoor er undan Gusti frá Grund og norskfæddri hryssu. Hann hefur hlotið 8,34 í aðaleinkun, þar af 8,71 fyrir hæfileika. 9 fyrir tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið. 8,5 fyrir brokk, skeið og hægt tölt.

hornfirski gustur1

Gustur frá Lækjarbakka. Knapi er Grettir Jónasson

Gustur frá Lækjarbakka, sonur Gusts frá Grund og Orku frá Búrfelli. Gustur er 1.verðlauna stóðhestur með 8,16 í aðaleinkun. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,16 og fyrir hæfileika einnig 8,16. Hann er sýndur sem klárhestur og skartar meðal annars 9 fyrir tölt, brokk, fegurð í reið og hægt tölt. Gustur sigraði ungmennaflokkinn á Landsmótinu 2008 með 8,80 og er nú farinn til Færeyja.

hornfirski gustsborn

Þrjár Gustsdætur frá Grund. Til vinstri er Vera frá Ingólfshvoli (9 fyrir tölt), í miðjunni er Fruma frá Efri-Þverá (9 fyrir brokk, 8,57 fyrir hæfileika) og til hægri er Gola frá Efsta-Dal II (9 tölt og 8,50 hæfileikar).


Hornfirski hesturinn í dag

Í dag má finna Hornfirskt blóð í ættum flestra hrossa, mis langt aftur. Það þynnist þó hratt og því miður eru fáir sem engir að vinna að því að viðhalda þessu gamla kyni, sem væri svo gott að geta gripið til þegar allt er orðið einn hrærigrautur.

Við höfum lengi vel haldið í Hornfirska blóðið og ætlum að reyna að halda því áfram eins lengi og auðið er.

Hér að neðan er tengill yfir á smá ágrip um okkar hornafjarðarræktun.

Smellið hér !

Tekið saman af: Heiða Heiler.